„Ekki kaupa argentínskan pesóa. Ég er hræddur um að þið munið tapa á því,“ sagði Robert Parker, aðalráðgjafi eignastýringar Credit Suisse, á haustfundi MP Banka í hádeginu. Í erindi sínu fór Parker yfir stöðuna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Hann sagði kauptækifæri í nokkrum gjaldmiðlum. Þar á meðal hafi Credit Suisse fjárfest til langs tíma í gjaldmiðlum Nýja-Sjálands, áströlskum dollar og kanadískum dal þrátt fyrir hátt gengi þeirra.

„Ég held að gjaldmiðlarnir verði r hátt skráðið út næsta ár,“ sagði hann og benti á að á hinn bóginn séu gjaldmiðlar ýmissa asíuríkja lágt skráðir og því tiltölulega lítil áhætta fólgin í því að fjárfesta í þeim til langs tíma. Á móti kemur má ekki búast við mikilli ávöxtun af fjárfestingunni.

Parker sagði erfitt að segja til um þróun evrunnar gagnvart Bandaríkjadal. Í sumar hafi flestir tekið stöðu gegn evrunni og veðjað á hrun hennar og upplausn evrusamstarfsins. Þessi stöðutaka, sem hafi verið með því mesta sem sést hafi í gegnum tíðina, hafi komið fram í gengissveiflum evrunnar þegar fjárfestar lokuðu stöðum sínum í lok sumars.

Hann sagði óvíst hvert evran stefni í bráð enda hafi hún sveiflast á báða bóga eins og Bandaríkjadalur. Báðir gjaldmiðlarnir eru þrátt fyrir allt lágt skráðir, þeir haldast í raun í hendur, að sögn Parkers.

„Evran mun aðeins styrkjast verulega ef fjárhagslegt stórslys verður í Bandaríkjunum í kringum næstu áramót, s.s. ef landið fer fram af fjárlagaþverhnípinu,“ sagði hann.