Hvernig sem á það er litið þá er fullkomlega útilokað að Grikkland geti greitt um 330 milljarða evra skuldir sínar til baka, segir Robert Parker, aðalráðgjafi Credit Suisse, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið. "Greining okkar [innsk. blm. hjá Credit Suisse] gerir ráð fyrir að Grikkland geti í mesta lagi greitt 100 milljarða til baka, ef tekst að útfæra niðurskurð á útgjöldum hins opinbera betur en gert hefur verið nú þegar.

Ég er ekki sannfærður um að það takist. Ástæðan er ekki síst sú að Evru-löndin þurfa öll að samþykkja björgunaraðgerð sem gengur lengra en núverandi hugmyndir gera ráð fyrir. Mér finnst blasa við, að fjármálastofnanir og þjóðríki sem eiga kröfur á Grikkland geti ekki gert annað en að niðurfæra kröfur á landið um a.m.k. 50% þar sem það er í því þeirri stöðu að geta ekki greitt til baka skuldir sínar.

En þá komum við að öðrum vanda; hverjir eru í nægilega góðri stöðu til þess að niðurfæra kröfurnar? Þar tel ég að séu ekki öll kurl komin til grafar. Tölurnar sem eru opinberar segja ekki alla söguna. Gæði hverrar eignar fyrir sig er það sem þarf að skoða. Hver banki fyrir sig er með ólíka áhættu gagnvart þessu vandamáli. En heilt yfir og almennt ályktað, tel ég að áhætta evrópskra banka, og raunar bandarískra einnig, gagnvart Grikklandi sé mikil og alvarleg. En vandamálið er ekki óleysanlegt.

Stjórnmálamenn þurf að sníða stakk gríska ríkisins eftir vexti og bankarnir þurfa að afskrifa skuldir. Það þarf að finna hinn gullna milliveg. Það er erfitt, en það er vel gertlegt."

Viðtalið við Parker birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem áskrifendur geta nálgast undir tölublöð.