„Við verðum að sætta okkur við að Ítalir og Spánverjar og fleiri lönd í suðurhluta Evrópu munu glíma við kreppu um langt skeið,“ segir Robert Parker, aðalráðgjafi Credit Suisse. Hann er aðalræðumaður á haustfundi MP Banka um horfur á alþjóðamörkuðum. Hann lagði áherslu á að mikil óvissa einkenni fjármálamarkaði um heim allan um þessar mundir. Þá valdi aðgerðir seðlabanka heimsins gegn kreppunni því að nú sé ekki lengur spurning hvort verðbólga taki að aukast á ný heldur hversu mikil hún verði.

Parker sagði að til viðbótar við kreppuna á evrusvæðinu þá sé óvíst hvort efnahagur Bandaríkjanna nái sér á strik á næstu mánuðum. Hvað hann snerti skipti mestu að Demókratar og Repúblikanar nái saman um fjárlög og aðgerðir til að draga úr halla á fjárlögum. Góðu fréttirnar þar eru hins vegar þær að fasteignamarkaðurinn hefur verið að taka við sér.

Parker fór yfir stöðuna á heimsmörkuðum í stuttu máli og sagði vísbendingar um að hægt hafi á hagkerfum flestra þeirra ríkja sem hafi haldið meðalhagvexti uppi í kreppu, þ.e.a.s. nýmarkaðsríkjunum. Bæði hafi hægt verulega á hagvexti í Kína og Brasilíu.

Parker benti ennfremur á að aðstæður séu erfiðar í Miðausturlöndum. Átök þar hafi valdið mikilli verðhækkun á hráolíuverði. Harðni átökin frekar sé hætt við að olíuverðið rjúki upp úr öllu valdi.

VIð þurfum að hafa áhyggjur af Miðausturlöndum. Það eru átök í gangi. Ef stríð brýst út þá mun olíuverð rjúka upp.