„Það er ekki hægt að kjósa Romney. Honum tókst að móðga alla bresku þjóðina fimm mínútum eftir að hann kom til landsins,“ segir Robert Parker, aðalráðgjafi Credit Suisse.

Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikana, kom til Bretlands í enda júlí, hélt þar kvöldverð í fjáröflunarskyni og var viðstaddur setningu Ólympíuleikanna í London. Hann var nýkominn til landsins þegar hann viðraði efasemdir um að borgaryfirvöld í London væru undir það búin að halda Ólympíuleikana í skugga þess að illa gengi að manna öryggisgæslu að viðbættu því að landamæraverðir hefðu boðað verkfall. Þetta fór illa í Breta, sem gagnrýndu forsetaefnið harðlega.

Mitt Romney og Barack Obama.
Mitt Romney og Barack Obama.

Bæði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Boris Johnson, borgarstjóri í London, skutu til baka á Romney vegna ummæla hans.

Romney hefur í vikunni verið í kastljósi fjölmiðla fyrir ummæli sín sem hann lét falla um stuðningsmenn Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna.

Við fjárlagaþverhnípið

Robert Parker, sem var með erindi um stöðuna á alþjóðamörkuðum á haustfundi MP Banka í gær, sagði efnahagshorfur heimshagkerfisins skýrast m.a. af því hvernig Bandaríkjunum reiði af á næstu mánuðum, ekki síst eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum í nóvember og samsetningu þingsins. Helstu hættumerkin framundan, að hans mati, eru þegar og hvort Bandaríkin fari fram af fjárlagaþverhnípinu svokalla undir árslok.

Þverhnípið er tvíeggjað. Annars vegar er um að ræða skattahækkanir í byrjun næsta árs og væntanlegan samdrátt í ríkisútgjöldum sem varað hefur við að geti dregið úr hagvexti og skellt landinu í kreppu á nýjan leik. Verði hins vegar fallið frá eða dregið úr skattahækkunum og boðuðum niðurskurði er talin hætta á að þjóðarskuldir Bandaríkjanna aukist enn frekar og líkur á að lendi í skuldavanda svipuðum þeim sem hrjáir evrusvæðið.