Forseti lagadeildar HÍ telur að meðferð máls Baldurs Guðlaugssonar í réttarkerfinu hafi ekki samræmst Mannréttindasáttmála Evrópu. Fjármálaeftirlitinu (FME) var óheimilt að taka aftur til rannsóknar innherjasvik Baldurs Guðlaugssonar eftir að hafa tilkynnt honum um niðurfellingu málsins vorið 2009. Þetta er mat Róberts Ragnars Spanó, lagaprófessors og forseta lagadeildar Háskóla Íslands, en fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

Þar kemur fram að Róbert víki að málinu í nýrri bók sem heitir eftir réttarreglunni Ne bis in idem sem snúist um bann við endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi en kveðið sé á um bannið í Mannréttindasáttmála Evrópu. Baldur hafi krafist þess í tvígang hið minnsta að máli hans yrði frá á grundvelli þessarar reglu. Fram, kemur í Fréttablaðinu að þessi ágreiningur hafi þegar farið fyrir Hæstarétt, sem hafnaði kröfu Baldurs og féllst á það með FME að bréfið sem Baldur fékk sent um niðurfellinguna hafi ekki falið í sér endanlega niðurstöðu.