Fjárfestirinn Robert Tchenguiz mun fá 1,5 milljónir sterlingspunda, jafnvirði um 300 milljóna króna, í skaðabætur frá breskum yfirvöldum. Morgunblaðið greinir frá því í dag að efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) hafi náð samkomulagi við fjárfestinn um greiðsluna vegna óréttmætrar handtöku á honum í tengslum við rannsókn á viðskiptum hans við Kaupþing banka.

Fyrr í vikunni var greint frá því að SFO hefði samið við bróður hans, Vincent Tchenguiz, um bætur upp á þrjár milljónir punda, jafnvirði um 600 milljóna króna, vegna sama máls. Þeir bræður voru meðal umsvifamestu viðskiptavina Kaupþings áður en bankinn fór í þrot haustið 2008.