Breski athafnamaðurinn Robert Tchenguiz ætlar að stefna efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, vegna rannsóknar embættisins á falli Kaupþings. Mun hann krefja stofnunina um skaðabætur, sem í blaðinu Telegraph eru sagðar geta hlaupið á milljónum punda.

Bróðir hans, Vincent, hefur þegar hótað því að fara í mál við SFO og hefur komið fram að hann muni krefjast um 100 milljóna punda í bætur frá embættinu.

Bræðurnir hafa sagt að rannsóknin hafi kostað þá stórfé í töpuðum viðskiptatækifærum, en þeir hafa átt í miklum erfiðleikum með að ganga frá samningum frá því að hún hófst. SFO hefur hætt rannsókninni á falli Kaupþings og sagði yfirmaður embættisins af sér vegna málsins.