Robert Tchenguiz, helsti samstarfsaðili Kaupþings á Bretlandseyjum og stjórnarmaður í Exista, hefur enn aukið hlut sinn í bresku verslunarkeðjunni J Sainsbury. Samkvæmt tilkynningu sem var send til kauphallarinnar í Lundúnum í gær hefur Tchenquiz aukið hlut sinn um 0,11% og er kominn í 4,15%.

Samkvæmt tilkynningunni var greitt á bilinu 545 til 549.5 pens fyrir hlutinn. Fréttastofan AFX sagði ennfremur frá því að einkafjárfestingasjóðir myndu hugsanlega leggja fram yfirtökutilboð í vikunni og myndi það miðast við 585 pens á hlutinn. Gerir fréttastofan því skóna að tilkynning um slíkt gæti komið fram á miðvikudag þegar Sainsbury kynnir afkomutölur fyrir fjórða ársfjórðung. Ef að verður er um að ræða eina stærstu skuldsettu yfirtöku í sögu Evrópu.

Fjárfestar hafa að undanförnu gengið kringum Sainsbury eins og kettir kringum heitan graut. Í byrjun síðasta mánaðar lýstu einkafjárfestingasjóðirnir CVC, KKR, TPG og Blackstone yfir því að þeir hefðu áhuga á taka verslunarkeðjuna yfir. Síðan þá hafa hlutabréf í keðjunni hækkað og þrálátur orðrómur verið um að fleiri kynnu að blanda sér í slaginn.

Þann sjötta mars úrskurðaði yfirtökunefnd einkafjárfestingasjóðirnir þyrftu að upplýsa um hvort þeir leggi fram yfirtökutilboð fyrir þann þrettánda apríl. Sama dag spurðist út að eignarhlutur Tchenguiz í Sainsbury væri kominn yfir þrjú prósent. Baugur blandaði sér einnig í leikinn um tíma en félagið byrjaði að fjárfesta í Sainsbury í upphafi árs. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að Baugur hafi hins vegar selt hlut sinn í félaginu.

Sérfræðingar segja að fjárfestar sýni verslunarkeðjunni áhuga meðal annars vegna undirliggjandi verðmæti fasteigna í hennar eigu. Hins vegar eru skiptar skoðanir um hversu hátt tilboð verðmæti þeirra geti réttlætt. Haft hefur verið eftir sérfræðingum í fjölmiðlum sem telja að fjárfestar muni leggja fram tilboð sem nemur allt að 600 pensum á hlut en aðrir telja að slíkt yfirtökutilboð geti aldrei staðið undir hærra verði en 550 pensum á hlut.

Það kann hins vegar að ráða miklu um endanlegt verð, verði tilboð lagt fram, hvernig menn meta lífeyrisskuldbindingar félagsins og hvort þær komi til með draga úr áhuga á skuldsettri yfirtöku á félaginu.