Fjárfestirinn Robert Tchenguiz hefur lagt fram skaðabótakröfu á hendur Kaupþingi og fleiri aðilum fyrir breskum dómstólum, og er Jóhannes Rúnar Jóhannsson, formaður slitastjórnar Kaupþings, einnig á meðal stefndu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá slitastjórninni á vef Kaupþings .

Þar segir að krafan sé samhljóða kröfu sem Vincents Tchenguiz, bróðir Roberts, lagði fram á hendur Kaupþingi í nóvember á síðasta ári. Krafðist hann þá 2,2 milljarða punda frá Kaupþingi, Jóhannesi Rúnari og fleiri aðilum, þar sem hann taldi aðilana bera ábyrgð á tjóni sem hann varð fyrir vegna rannsóknar efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar á lánveitingum Kaupþings til félaga á vegum þeirra bræðra.

Breskur dómstóll vísaði kröfu Vincent Tchenguiz frá dómi og sótti hann í kjölfarið um leyfi til þess að áfrýja niðurstöðunni. Slitastjórn Kaupþings segir að krafa Roberts nú komi á óvart, þar sem kröfu bróður hans hafi áður verið vísað frá breskum dómstólum. Því muni slitastjórnin óska frávísunar kröfunnar á sama grundvelli og áður.

Þá tekur slitastjórnin fram að skaðabótakröfu Roberts hafi ekki verið lýst í slitabúið sem síðbúin forgangskrafa. Því verður að líkindum ekki tekið tillit til hennar við gerð nauðasamninga.