Aðalfundur Actavis er haldinn í dag og þar mun verða sú breyting á stjórn félagsins að forstjóri þess, Róbert Wessman, mun setjast í stjórn Actavis. Hann sest þar í krafti eignarhlutar síns, en hann á 4,1% eignarhlut í félaginu. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu er ekki um það að ræða að hann sé að taka við sem starfandi stjórnarformaður né að hætta sem forstjóri.

Róbert kemur inn í stjórn félagsins í staðinn fyrir Karl Wernersson, stjórnarformann Milestone, sem hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 1999. Karl og tengdir aðilar eiga á milli 5 og 6% í Actavis og sagði Karl að sala væri ekki á döfinni. Hann væri bara að forgangsraða stjórnarsetu sinni.

Sjálfkjörið er í stjórn Actavis og aðrir sem eru tilnefndir eru Björgólfur Thor Björgólfsson, Sindri Sindrason, Magnús Þorsteinsson og Andri Sveinsson.