Í fréttatilkynningu frá Róberti Wessman segir hann að alrangt sé að honum hafi verið vikið úr starfi forstjóra. Með tilkynningunni fylgir afrit af starfslokasamningi Róberts við Actavis frá árinu 2008. Tilkynning Róberts er svohljóðandi:

„Við gerðum formlegan samning um starfslokin og þar kemur hvergi fram að mér hafi verið vikið úr starfi heldur þvert á móti er tekið fram að samkomulag hafi náðst. Tekið er fram að uppsagnarfrestur verði greiddur sem var sex mánuðir og að ég styðji yfirfærslu verkefna til nýs forstjóra og verði aðgengilegur eftir þörfum. Ljóst má vera að hefði verið um brottrekstur að ræða hefðu bæði samningur og greiðslur til mín verið á annan veg. Ég vildi einfaldlega snúa mér að mínum eigin fjárfestingum og leiðir okkar skildu. Mér finnst áríðandi að rétt sé farið með þetta mál.

Varnarbarrátta Björgólfs til að verja skaddað mannorð sitt hefur nú tekið á sig nýja mynd og fjöldi manns vinnur nú hörðum höndum til þess eins að þeyta ryki í augu almennings. Björgólfur virðist hreinlega neita að axla sína ábyrgð á þeim hrunadansi sem hér hefur orðið. Ekki verður hjá því komist að velta fyrir sér þeim kostnaði sem Björgólfur hefur nú varið í spunameistaravinnu og væri þeim peningum nú ekki betur varið í uppgjöri á skuldum fyrirtækja hans.

Ég ætla mér ekki munnhöggvast við Björgólf í fjölmiðlum en hvet hann eindregið til að verja sín umsvif í íslensku viðskiptalífi með staðreyndum en ekki endurteknum rangfærslum. “

Starfslokasamning Róberts við Actavis má lesa hér:

Actavis Group hf. , Dalshraun 1, 220 Hafnarfjörður, hér eftir nefnt félagið, og Róbert Wessman, kt. 041069-3769, Lálandi 10, 108 Reykjavík, hér eftir nefndur framkvæmdastjóri, gera með sér svohljóðandi

Samning um starfslok

1.        Forsendur

1.1     Þann 16. febrúar 2003 gerðu félagið og framkvæmdastjóri með sér ráðningarsamning, hér eftir nefndur “ráðningarsamningur/-inn” , þar sem framkvæmdastjóri var ráðinn til starfa hjá félaginu sem forstjóri félagsins (þá nefnt Pharmaco hf.). Samningi þessum hefur síðar verið breytt hvað snertir launakjör framkvæmdastjórans.

1.2     Þann 4. ágúst 2008 varð samkomulag milli aðila um að framkvæmdastjóri hætti störfum fyrir félagið. Af þeim sökum hafa framkvæmdastjóri og félagið komist að því samkomulagi um starfslok, sem nánar er lýst í samningi þessum.

1.3     Samningur þessi um starfslok hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur aðila samkvæmt fjárfestingarsamningi (Investment Agreement) dags. í júlí 2007 og kaupsamningi um hlutafé (Share Purchase Agreement) dags. 5. september 2007 hvað snertir eignarhald framkvæmdastjórans á hlutum í Novator Pharma sárl.

2.        Starfslok

2.1     Samkomulag er um það með félaginu og framkvæmdastjóra að ráðningarsamningi verði slitið og að starfslokasamningur þessi komi í stað ráðningarsamningsins og annarra starfstengdra réttinda. Geymi starfslokasamningurinn öll ákvæði sem gilda um réttindi og skyldur aðila. Samkvæmt því fellur ráðningarsamningurinn niður við undirritun samnings þessa og getur hvorugur aðila byggt rétt á honum eftir það.

2.2     Samkomulag er með aðilum að framkvæmdastjóri láti af daglegum störfum hjá félaginu frá og með undirritun samnings þessa. Félagið fellur því frá daglegri viðveruskyldu framkvæmdastjóra út uppsagnarfrest.

2.3     Þó er umsamið að framkvæmdastjóri verði til staðar fyrir tilfallandi verkefni út uppsagnartímann og aðstoði félagið við yfirfærslu verkefna framkvæmdastjóra til nýs framkvæmdastjóra. Auk þess getur félagið krafist þess af framkvæmdastjóra að meðan á uppsagnarfresti stendur skuli hann veita félaginu upplýsingar og aðstoð við úrlausn, vinnslu og frágang þeirra verkefna sem tengdust starfi hans hjá félaginu, á þann hátt sem félagið telur nauðsynlegt hverju sinni.

2.4     Aðilar munu vinna sameiginlega að því að hámarka verðmæti fyrirtækisins og koma því í söluferli þannig að hagsmunir hluthafa verði hámarkaðir. Munu aðilar ekki gera neitt sem skaða getur hagsmuni félagsins fram að slíkri sölu.

2.5     Framkvæmdastjórinn skal skráður úr öllum stjórnum sem hann situr í í dótturfélögum félagsins. Skal slík afskráning eiga sér stað innan 15 viðskiptadaga eftir því sem við verður komið innan þess tíma.

3.        Greiðslur og hlunnindi

3.1     Samkomulag er með aðilum að félagið greiði framkvæmdastjóra föst mánaðarlaun eins og þau eru við undirritun samnings þessa í sex mánuði talið frá næstu mánaðarmótum, ásamt því að greidd verða full mánaðarlaun fyrir ágúst 2008. Verður upphæðin greidd mánaðarlega við lok viðkomandi mánaðar. Til viðbótar greiðir félagið mánaðarlega umsamið lífeyrissjóðsframlag.

3.2     Orlof reiknast ekki á framangreinda fjárhæð heldur skoðast hún sem  fullnaðar uppgjör aðila.

3.3     Ofangreindu til viðbótar skal framkvæmdastjóra heimilt að hafa til eigin nota á kostnað félagsins (innan eðlilegra marka) gsm síma, fartölvu sem og heimtengingar því tengdu og greiða iðgjald- til líf og heilsutryggingar framkvæmdastjórans eins og fram kemur í 5. gr. ráðningarsamningsins á framangreindu sex mánaða tímabili.

3.4     Framkvæmdastjórinn skal hafa til afnota þá bifreið sem hann hefur haft til afnota í þrjá mánuði (talið frá næstu mánaðarmótum) á kostnað félagsins. Að þeim tíma loknum skal framkvæmdastjórinn eiga rétt til þess að kaupa bifreiðina á matsverði.

3.5     Með undirritun undir starfslokasamninginn lýsir framkvæmdastjóri því yfir að um fullnaðaruppgjör launa, starfstengdra hlunninda, bónusa og allra annarra launatengdra atriða sé að ræða og að hann eigi engar frekari kröfur á hendur félaginu vegna ráðningarsambands hans og félagsins.

4.        Starfstengd hlunnindi

4.1     Að öðru leyti en greinir í 3. gr. hér að ofan falla niður við undirritun samnings þessa öll starfstengd hlunnindi framkvæmdastjóra, auk allra annarra fríðinda er hann hefur haft, hvort sem þau komi fram í ráðningarsamningi eða ekki.

4.2     Við lok þess tímabils sem greinir í grein 3.1 hér að ofan skal framkvæmdastjóri skila þeim tækjum og búnaði sem í eigu félagsins er.

4.3     Einnig ber framkvæmdastjóra að afhenda félaginu fyrirtækjakreditkort sem hann hefur haft frá félaginu við undirritun samnings þessa.

4.4     Tilgangur 4. gr. er að slá af og fella niður allan rétt til starfstengdra hlunninda er framkvæmdastjóri kann að hafa haft hjá félaginu, enda lýkur daglegri starfsviðveru framkvæmdstjóra við undirritun samnings þessa. Kemur framkvæmdastjóri ekki til með að fá neinar greiðslur frá félaginu aðrar en greiðslur skv. 3. gr. samnings þessa.

5.        Trúnaðarákvæði

5.1     Framkvæmdastjóri er bundinn þagnarskyldu um hvað eina sem hann varð áskynja í starfi sínu varðandi starfsemi félagsins og tengdra félaga og/eða viðskiptavini sömu aðila. Gildir þagnarskyldan bæði utan og innan félagsins og helst þagnarskyldan eftir starfslok framkvæmdastjóra. Brot á þagnarskyldu getur valdið fyrirvaralausri riftun samnings þessa og niðurfalls greiðsluskyldu félagsins samkvæmt 3. gr. samnings þessa.

5.2     Framkvæmdastjóri má ekki, með hvaða hætti sem er, beint eða óbeint, upplýsa neinn aðila um gögn, þ.m.t. gögn varðandi viðskiptavini, svo sem viðskiptamannalista, viðskiptatengsl, tæknilegar-, viðskipta og/eða fjárhagslegar upplýsingar, sem tengist með beinum eða óbeinum hætti félaginu og/eða tengdum félögum, sem framkvæmdastjóri veit eða á að vita að skulu vera leyndarmál og/eða bundin trúnaði. Þagnar- og trúnaðarskylda þessi breytist ekki við starfslok.

5.3 Trúnaðarupplýsingar samkvæmt samningi þessum eru meðal annars:

1.            allar skriflegar upplýsingar og skjöl sem sérstaklega eru merkt sem trúnaðarskjöl, auk allra munnlegra upplýsinga sem vegna eðli þeirra verður að meðhöndla sem trúnaðarupplýsingar milli framkvæmdastjóra og félagsins og/eða tengdra félaga;

2.            allar upplýsingar og skjöl í hvaða formi sem er, svo sem skrifleg, munnleg, líkön, í stafrænu formi, lýsingar, uppdrættir og/eða uppskriftir er tengjast starfsemi félagsins og/eða tengdra félaga, sem framkvæmdastjóri hefur fengið aðgang að, beint eða óbeint, í starfi sínu fyrir félagið;

3.            allar upplýsingar varðandi vinnu, niðurstöður og uppgötvanir er framkvæmdastjóri, einhver undir hans stjórn eða annar starfsmaður/menn hafa tekið að sér að vinna fyrir félagið og/eða tengd félög.

Upplýsingar sem ekki eru bundnar trúnaði samkvæmt samningi þessum eru meðal annars:

1.            upplýsingar sem eru á lögmætan hátt aðgengilegar almenningi;

2.            upplýsingar er framkvæmdastjóri hafði aflað sér áður en hann hóf störf hjá félaginu og hann hefur ekki fengið upplýsingar um að séu bundnar trúnaði;

3.            upplýsingar sem framkvæmdastjóri hefur aflað sér á lögmætan hátt frá öðrum aðilum en félaginu og/eða tengdum félögum. Þó má framkvæmdastjóri ekki upplýsa um slíkar upplýsingar ef hann hefur ástæðu til að telja að slíkt gæti haft tjón í för með sér fyrir félagið og/eða tengd félög.

4.            upplýsingum sem félagið og/eða tengd félög hafa sérstaklega merkt sem ekki bundin trúnaði. Þó má framkvæmdastjóri ekki upplýsa um slíkar upplýsingar ef hann hefur ástæðu til að telja að slíkt gæti haft tjón í för með sér fyrir félagið og/eða tengd félög.

5.4     Fyrrgreindar skuldbindingar framkvæmdastjóra fela það meðal annars í sér að upplýsa aldrei utanaðkomandi aðila um trúnaðarupplýsingar. Að auki skuldbindur framkvæmdastjóri sig til þess að tryggja að afrit trúnaðargagna og annarra mikilvægra gagna séu geymd á tryggan máta á þann hátt að utanaðkomandi aðilar geti ekki fengið aðgang að þeim.

5.5     Við starfslok skal framkvæmdastjóri skila öllum afritum sem hann hefur tekið eða gert á meðan á starfinu stóð og upplýsa vinnuveitanda og félagið um þau afrit sem hann hefur látið frá sér til annarra. Ef skilum á afritum verður ekki við komið, skal framkvæmdastjóri eyða þeim afritum sem hann getur ekki skilað.

5.6     Brjóti framkvæmdastjóri gegn trúnaðarskyldum sínum skal hann bæta félaginu allt fjárhagslegt tjón sem slíkt brot veldur félaginu, eigendum þess persónulega og/eða tengdum félögum og eigendum þess persónulega. Framkvæmdastjóri er einnig minntur á refsiábyrgð vegna brota gegn trúnaðarskyldum, sbr. 13. og 26. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

6.        Vanefndaákvæði

6.1     Komi til þess að framkvæmdastjóri vanefni samning þennan á einhvern hátt fellur greiðsluskylda félagsins samkvæmt 3. gr. niður þegar í stað.

6.2     Þá áskilja báðir aðilar sér rétt sér til handa vegna hvers kyns vanefnda gagnaðila.

7.        Lög og lögsaga

7.1     Með samningi þessum er að fullu lokið uppgjöri vegna starfsloka framkvæmdastjóra.

7.2     Samningur þessi og öll lögskipti aðila fyrr og síðar skulu fara eftir íslenskum lögum.  Mál sem rísa kunna vegna samnings þessa skulu eiga undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

* * * *

Öllu framangreindu til staðfestu undirrita félagið og framkvæmdastjóri samning þennan í viðurvist tveggja vitundarvotta:

Reykjavík 5. ágúst 2008

____________________________

f.h. Actavis Group hf.

____________________________

Róbert Wessman

Vitundarvottar að réttri dagsetningu og undirskriftum aðila:

______________________________        ______________________________

Nafn                               kennitala       Nafn                               kennitala