Róbert Wessman, fráfarandi forstjóri Actavis Group, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að hann muni nú einbeita sér að starfsemi eigin fjárfestingafélags, Salt Investment, og hlúa að þeim fjárfestingum og rekstri. Hann muni hins vegar sitja áfram í stjórn Actavis Group, en hann er annar stærsti eigandi þess með um tíund hlutafjár.

Hann segir að komið hafi verið að ákveðnum tímamótum. „Ég hef verið í tæp tíu ár hjá Actavis og eflaust orðið tímabært að vinna eingöngu fyrir sjálfa sig,” segir Róbert. „Ég á orðið mikla hagsmuni annars staðar, töluverðar eignir o.fl., og þetta varð sameiginleg niðurstaða okkar Björgólfs Thors,” segir hann .

Ekki hagsmunarárekstrar á milli félaga

Aðspurður hvort orðið hafi hagsmunaárekstrar á milli hans eigin rekstrar og rekstrar Actavis svarar Róbert því neitandi. „Ég hef alltaf stundað eigin fjárfestingar í gegnum árin og með því að stofna  fjárfestingarfélagið mitt var ég að gefa fjárfestingum mínum ákveðið nafn og tryggja að ég hefði aðila til  að sinna þeim. Þarna var því ekki slíkt að ræða,” segir hann.

Hann kveðst ánægður með hvernig til hefur tekist með rekstur Actavis, en það hefur vaxið mjög. Má benda á að á undanförnum sjö árum hefur félagið keypt upp ríflega 20 fyrirtæki á sínu sviði. Nú starfa hjá fyrirtækinu um 11 þúsund manns í fjörutíu löndum.

„Ég geng ekki aðeins sáttur frá borði heldur geng ég gríðarlega stoltur frá borði. Á undanförnum árum hefur tekist að byggja upp félag sem er orðið það fimmta stærsta í heimi á sínu sviði, og það hefur enginn gert slíkt fyrr í sögunni, þannig að ég er gífurlega stoltur af félaginu og mínu samstarfsfólki. Ég hef haft geysilega gaman af þessu starfi, segir hann.

Hann kveðst muna sitja áfram í stjórn Actavis og styðja við félagið eftir megni, en að öðru leyti einbeiti hann sé að Salti Investment.

Spennandi tímar framundan

Róbert segir mörg skemmtileg og ögrandi verkefni bíða hans hjá Salti Investment. „Ég hef ekki verið að sinna Salti Investment í neinum mæli en mun nú setja fókusinn á það. Mörg spennandi verkefni eru þar í gangi og mörg í bígerð, þannig að það verður nóg að gera að hlúa að eigin málum. Það eru spennandi og nýir tímar framundan hjá mér.”