*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 18. apríl 2017 15:08

Róbert Wessman í hluthafahóp Pressunnar

Hlutafé í Pressunni, móðurfélagi Vefpressunnar, DV og Birtíngs, verður aukið um 300 milljónir króna og formlega verður gengið frá skráningu hlutafjár á næstu dögum.

Ritstjórn
Róbert Wessman er einn af eigendum Fjárfestingafélagsins Dalurinn ehf.
Haraldur Guðjónsson

Útgáfufélagið Pressan er að ljúka hlutafjáraukningu fyrirtækisins þar sem breiður hópur fjárfesta kemur að rekstri samstæðunnar. Hlutafé í Pressunni, móðurfélagi Vefpressunnar, DV og Birtíngs, verður aukið um 300 milljónir króna og formlega verður gengið frá skráningu hlutafjár á næstu dögum að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Pressunni.

Björn Ingi hættir sem stjórnarformaður

Gunnlaugur Árnason verður nýr stjórnarformaður samstæðunnar og mun leiða stefnumótun samstæðunnar fyrir hönd hluthafa. Hann er eigandi bresku fjölmiðlafyrirtækjanna M2 Communications og M2 Bespoke, og vann um fimm ára skeið sem blaðamaður hjá Reuters-fréttastofunni í Lundúnum og var ritstjóri Viðskiptablaðsins á árunum 2005 til 2007.

Björn Ingi Hrafnsson, sem verið hefur stjórnarformaður og útgefandi Pressunnar frá stofnun fyrirtækisins, hverfur nú að eigin ósk til annarra verkefna innan samstæðunnar. Hann mun m.a. hafa umsjón með sjónvarpsþættinum Eyjunni á ÍNN. Björn Ingi tekur þátt í hlutafjáraukningunni ásamt viðskiptafélaga sínum og meðstofnanda Pressunnar, Arnari Ægissyni. Þá eiga þeir jafnframt kauprétt í félaginu.

Í fyrra eignaðist Pressan útgáfufélagið Birtíng, eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna félaganna.  Meðal miðla samstæðunnar eru: Dagblaðið Vísir (DV), og vefmiðlar á borð við; Pressan.is, Eyjan.is, bleikt.is, 433.is, doktor.is og DV.is, auk sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN. Þá eru fjölmörg landsmálablöð gefin út af útgáfunni, t.d. Akureyri vikublað, Vesturland, Austurland, Suðri, Vestfirðir og Reykjanes. Undir hatti Birtíngs eru t.d. gefin út tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.  Gert er ráð fyrir því að sameiginleg velta Pressunnar og tengdra félaga árið 2017 verði um 1,3 milljarðar króna. 

Róbert Wessman og Skúli í Subway í hluthafahópinn

Heildarupphæð hlutafjáraukningunnar nam 300 milljónum króna. Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. sem er í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Hilmars Þórs Kristinssonar, Halldórs Kristmannssonar og Jóhanns G. Jóhanssonar, leggur 155 milljónir króna í félagið.

Kringluturninn sem er félag í eigu Björns Inga og Arnars sem áður áttu stóran hluta af hlutafé félagsins leggja 50 milljónir til félagsins. Gufupressan í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar setur 10 milljónir í félagið.

Fyrrum forstjóri verður Deloitte meðstjórnandi

Meðstjórnendur í félaginu eru þau Þorvarður Gunnarsson, fyrrum forstjóri Deloitte á Íslandi, Sesselja Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins TagPlay og Halldór Kristmannsson fyrirmaður samskipta- og markaðssviðs lyfjafyrirtækisins Alvogen. Eins og kemur fram hér að ofan er Gunnlaugur Árnason nýr stjórnarformaður og segir Björn Ingi af sér stjórnarformennsku.

„Þetta eru mikil tímamót og ég fagna þessum tíðindum mjög, enda höfum við unnið að þessu um margra mánaða skeið,“ er haft eftir Birni Inga í tilkynningunni. „Það er mikil viðurkenning fyrir þetta fyrirtæki að ljúka svo umfangsmikilli hlutafjárhækkun og um leið mikilvægt að breiður hluthafahópur komi að rekstri tæplega þrjátíu ólíkra fjölmiðla. Það hefur verið algjörlega mögnuð lífsreynsla að byggja þetta fyrirtæki upp á undanförnum árum með okkar góða samstarfsfólki og mikilvægt að tryggja fjárhagslegan grundvöll þess til lengri framtíðar. Allir vita hversu mikilvæg starfsemi fjölmiðla er í okkar samfélagi, en jafnframt að rekstrarumhverfi þeirra hefur verið krefjandi. Nú er ég spenntur að taka þátt í frekari uppbyggingu sem stór hluthafi og sinna jafnframt öðrum verkefnum.“

Gunnlaugur Árnason segir það krefjandi verkefni að koma að rekstri Pressunnar. „Félagið hefur vaxið hratt á síðustu árum og nú er kominn tími til þess að staldra við og leitast við að nýta tækifæri sem felast innan samstæðunnar. Félagið er vel í stakk búið til þess að bjóða auglýsendum upp á fjölbreyttan lesendahóp á vefnum, á pappír og í sjónvarpi – dreifingarleiðir sem gera samstæðunni kleift að nýta sér nýja tekjustrauma sem hafa verið að þróast á síðustu árum. Aðkoma nýrra hluthafa hefur þau áhrif að hægt verður að bæta enn frekar þjónustu við notendur miðla samstæðunnar.“

Núverandi framkvæmdastjóri Birtíngs, Karl Steinar Óskarsson, mun sinna því hlutverki á samstæðugrundvelli. Þá mun Matthías Björnsson, sem verið hefur fjármálastjóri Birtíngs, verða fjármálastjóri samstæðunnar. Sigurvin Ólafsson verður áfram framkvæmdastjóri DV.

Eftirfarandi hluthafar hafa staðfest þátttöku sína í hlutafjáraukningu í Pressunni ehf:

Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. 155 milljónir króna. Félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar, Hilmars Þórs Kristinssonar, Halldórs Kristmannssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar.

Kringluturninn ehf.: 50 milljónir króna. Félag í eigu Björns Inga og Arnars

OP ehf. (Birtingur) 47 milljónir króna. Félag í eigu Hreins Loftssonar, Karls Steins Óskarssonar og Matthíasar Björnssonar

FÓ eignarhald ehf. (KEA) 20 milljónir. Félag í eigu Andra Gunnarssonar, Fannars Ólafssonar og Gests Breiðfjörð Gestssonar.

Eykt ehf. 15 milljónir króna. Félag í eigu Péturs Guðmundssonar

Gufupressan ehf. 10 milljónir króna. Félag í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar.

Venediktsson samsteypan 2 milljónir króna. Sigurvin Ólafsson.

Viel ehf. Milljón króna. Félag í eigu Viggós Einars Hilmarssonar

Samtals: 300 milljónir króna.