Róbert Wessman verður starfandi stjórnarformaður bandaríska lyfjafyrirtækisins Alvogen Group að því er kemur fram í tilkynningu. Í samstarfi við fyrrverandi stjórnarformann félagsins og bandaríska fjárfestingafélagið AFI Partners  verður unnið að frekari uppbyggingu Alvogen á alþjóðlegum lyfjamarkaði undir forystu Róberts.

Á undarförnum misserum hefur Róbert unnið að því að setja á laggirnar alþjóðlegan fjárfestingasjóð, sem mun sérhæfa sig í fjárfestingum í samheitalyfjafyrirtækjum. Uppbygging leiðandi alþjóðlegs samheitalyfjafyrirtækis er þannig í undirbúningi. Uppbygging sjóðsins hefur verið unnin í samstarfi við Kalan Capital LLP og svissneska bankann Credit Suisse. Fjárfesting í Alvogen er fyrsta skrefið í stofnun sjóðsins segir í tilkynningu.

Róbert var forstjóri Actavis um níu ára skeið og lét af störfum um mitt ár 2008.  Undir hans stjórn tók félagið miklum stakkaskiptum og komst m.a. í hóp stærstu fyrirtækja heims á sínu sviði. Þá var Actavis um árabil skráð í Kauphöll Íslands og skilaði að jafnaði hæstu ávöxtun skráðra hlutabréfa á þeim tíma sem Róbert stýrði félaginu.

Alvogen er bandarískt samheitalyfjafyrirtæki með yfir 100 ára rekstrarsögu. Félagið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja, sem eru flókin í þróun og framleiðslu. Alvogen hefur fjölda samheitalyfja í þróun og árlegt söluverðmæti þeirra frumlyfja á markaði í dag er um 17 milljarðar bandaríkjadala, sem endurspeglar vaxtamöguleika og styrk þróunarstarfs félagsins. Í dag starfa um 400 starfsmenn hjá Alvogen í Bandaríkjunum og væntanlegar tekjur félagsins á árinu 2009 eru um fimm milljarðar króna.

Alvogen starfrækir fullkomna lyfjaverksmiðju í New York fylki, sem getur framleitt um átta milljarða taflna á ári og hefur verksmiðjan getið af sér gott orð fyrir hágæða framleiðslu. Verksmiðja Alvogen var áður í eigu lyfjafyrirtækisins Procter og Gamble.

Alvogen hefur um níu milljarða króna til ráðstöfunar til að styðja við fyrirhugaðan vöxt félagsins í Bandaríkjunum. FÍ tilkynningu kemur fram að framtíðarsýn Alvogen miðar að því að byggja upp öflugt alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem verði leiðandi á sínu sviði innan fárra ára.

Doug Drysdale verður áfram forstjóri Alvogen en hann hefur yfir 20 ára reynslu úr lyfjaiðnaði og var um árabil yfirmaður fyrirtækjakaupa hjá Actavis. Svafa Grönfeldt, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Actavis, mun ásamt Árna Harðarsyni fyrrverandi lögfræðingi Actavis, setjast í stjórn Alvogen.