Róbert Wessman,fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Actavis, segir Björgólf Thor Björgólfsson nú reyna með öllum ráðum, með hjálp "áróðursmeistara" að fegra skaðað orðspor sitt. Hann segir Björgólf hafa skaðað Actavis með aðkomu sinni að félaginu: "Við yfirtöku Novators á Actavis var félagið kæft í skuldum sem íþyngdi rekstur þess verulega.  Skuldsetning Novator á Actavis við yfirtökuna var um 12 sinnum framlegð félagsins sem gerði rekstur þess fjárhagslega mjög veikburða.," segir Róbert í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna upplýsinga sem koma fram á vefsíðu Björgólfs.

Yfirlýsingin frá Róberti er hér að neðan.

"Yfirlýsing frá Róberti Wessman

Að gefnu tilefni vegna ummæla  Björgólfs Thors Björgólfssonar sem birst hafa í fjölmiðlum varðandi starfslok mín hjá Actavis vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Actavis úr litlu fyrirtæki í hóp stærstu fyrirtækja heims

Ég var forstjóri Actavis frá árinu 1999 til ársins 2008 og tók félagið miklum stakkaskiptum á þeim tíma og óx og dafnaði frá því að vera lítið íslenskt fyrirtæk í að komast í hóp fimm stærstu fyrirtækja heims á sínu sviði, með starfsemi í 40 löndum og 13 þúsund starfsmenn. Reksturinn stóð styrkum stoðum og raunveruleg verðmæti voru sköpuð bæði hérlendis sem erlendis.

Actavis starfrækti um 20 verksmiðjur í 10 löndum og voru 14 þeirra endurbyggðar eða voru uppfærðar til að standast ítrustu gæðakröfur í Bandaíkjunum og Evrópu. Í þeim tilvikum sem komu upp gæðavandamál var bruðgðist við því með viðeigandi hætti af stafsfólki fyrirtækisins.

Actavis var í minni forstjóratíð ætíð hóflega skuldsett og eiginfjárhlutfall sterkt. Rekstur félagsins var góður og mikið var fjallað um starfsemi félagsins af fjölmiðlum og greiningaraðilumbæði hér heima og erlendis. Við afskráningu félagsins voru til að mynda fjórir erlendir greiningaraðilar sem gáfu út verðmat á félagið og fóru mjög jákvæðum orðum um rekstur þess (Credit Suisse, Merill Lynch, ABN Amro og Cazanove). Stjórnendur Actavis vöktu athygli fyrir skýra framtíðarsýn og skilvirka stjórnun og má þar nefna Case Study Harvard Business School undir nafninu „Actavis and the Winning formula“ auk fyrrnefndra greiningaskýrslna því til staðfestingar. Félagið hafði orðspor fyrir metnaðarfull  markmið og áform um að komast í hóp stærstu og arðbærustu fyrirtækja á sínu sviði, sem tókst á aðeins örfáum árum. Um þennan árangur verður ekki deilt.

Ég er afar stoltur af starfi mínu hjá Actavis og þeim árangri sem starfsmenn fyrirtækisins hafa náð.  Við byggðum upp öflugt alþjóðlegt fyrirtæki sem skapað hefur mikil verðmæti fyrir íslenskt samfélag sem og hluthafa.

Aðkoma Björgólfs að Actavis

Ummæli Björgólfs, sem verið hafði stjórnarformaður fyrirtækisins Actavis í átta ár og heldur því fram hann hafi fyrst kynnst félaginu og rekstri þess á níunda árinu dæma sig sjálf sem marklaus. Við yfirtöku Novators á Actavis var félagið kæft í skuldum sem íþyngdi rekstur þess verulega.  Skuldsetning Novator á Actavis við yfirtökuna var um 12 sinnum framlegð félagsins sem gerði rekstur þess fjárhagslega mjög veikburða.

Rangfærslur Björgólfs Í framhaldi af afskráningu Actavis á hlutabréfamarkaði hafði ég hug á því að snúa mér alfarið að eigin fjárfestingum og hafði aukið umsvif mín á þeim vettfangi.  Jafnframt hafði lýsti ég því ítrekað yfir við Björgólf að ég hefði ekki áhuga að starfa frekar  með honum af ástæðum sem verða ekki tíundaðar hér. Nú eru ummæli hans farin að beinast að mér persónulega og að störfum og starfslokum mínum hjá Actavis, þá er það því miður eins og svo oft áður hjá Björgólfi að hann fer með rangt mál. Leiðréttist það hér með.

Björgólfur Thor Björgólfsson hefur nú opnað nýja vefsíðu sem fyrir margra hluta sakir er áhugaverð. Markmiðið er skýrt og fátt virðist heilagt í skrifum hans. Eins og oft áður er megináhersla lögð á að finna á blóraböggla fyrir því sem miður hefur farið í hans fjárfestingum. Fjölmiðla- og áróðursmeistarar Björgólfs róa nú öllum árum að því að hreinsa skaðað orðspor hans og þræða nýjar víddir í þeim efnum.   Í ljósi þess sem hér að ofan greinir, skora á fjölmiðla að skoða yfirlýsingar Björgólfs með gagnrýnum augum.   Róbert Wessman"