Deilum athafnamannanna Björgólfs Thors Björgólfssonar og Róberts Wessman fyrir dómstólum er lokið, að því er segir í frétt Stöðvar 2 . Róbert Wessman hefur skrifað undir skuldabréf upp á 5 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 800 milljóna króna, sem hann þarf að greiða Björgólfi Thor og Actavis.

Upphaf deilnanna má rekja til þess að Róbert og félag Björgólfs, Novator Pharma, móðurfélag Actavis, gerðu með sér samning í júlí 2007 þar sem kveðið var á um að Róbert myndi kaupa 12% hlut í Novator Pharma þegar tilteknum ráðstöfunum á yfirtöku Actavis yrði lokið.

Í samningnum var einnig mælt fyrir um að Róberti yrði tryggð árangursþóknun. Í ágúst 2008 hætti Róbert störfum hjá Actavis og um ári síðar tilkynnti Novator Pharma Róberti að vegna fjárhagslegrar stöðu gæti það ekki staðið við samninginn við hann.

Í kjölfarið fylgdu dómsmál milli þeirra, en þeir töldu sig báðir eiga kröfur hver á annan. Tvö félög í eigu Björgólfs voru dæmd til að greiða Róberti 20 milljónir evra, en Róbert var gert að greiða öðru félagi Björgólfs 7,7 milljónir evra. Þar félög Björgólfs, sem Róbert átti kröfur á, voru eignalaus fékk hann ekkert upp í kröfurnar. Skuld Róberts við Björgólf var hins vegar með persónulegri ábyrgð hans. Þeir hafa nú leyst úr ágreiningnum með áðurnefndum hætti.