Bandaríska samheitalyfjafyrirtækið Alvogen, sem Róbert Wessmann fer fyrir, er langt komið með áform um að reisa verksmiðju hér á landi, að því er segir í frétt Morgunblaðsins. Vonir standa til að búið verði að ganga frá fjármögnun á verkefninu fyrir lok september. Gangi það eftir hefst byggingartímabil sem tekur 15-18 mánuði.

Fyrirtækið hefur þegar fengið nokkurt fé til landsins í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans vegna uppbyggingar verksmiðjunnar en í frétt Morgunblaðsins segir að það sé engu að síður einungis lítið brot af þeim fjármunum sem til þarf. Aztiq Pharma, sem er eignarhaldsfélag undir stjórn Róberts og á í Alvogen, gaf út skuldabréf um miðjan maí til þess að fara fjárfestingaleið Seðlabankans. Skuldabréfið hljóðar upp á 220 milljónir króna. Það ber 9% fasta ársvexti. Bréfið er á gjalddaga að tíu árum liðnum og ekki þarf að greiða afborganir fyrstu fimm árin.