Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, og Jóhann G. Jóhannsson, starfsmaður á fjármálasviði Alvogen, hafa selt hlut sinn í Fjárfestingafélaginu Dalnum, eiganda Birtíngs útgáfufélags, til Halldórs Kristmannssonar, sem er framkvæmdastjóri hjá Alvogen. Halldór átti fyrir 25% hlut í Dalnum en er nú orðinn eini hluthafi félagsins. Birtíngur gefur út tímaritin Vikuna, Mannlíf, Hús og híbýli og Gestgjafann.

Halldór hefur verið framkvæmdastjóri hjá Alvogen og áður Actavis nær samfellt í 17 ár. „Það ríkir mikil samkeppni á íslenskum fjölmiðlamarkaði og spennandi áskorun að koma að áframhaldandi uppbyggingu Birtíngs. Síðustu ár hafa verið erfið í rekstri fyrirtækisins en frá því nýir eigendur komu að rekstrinum hafa orðið umtalsverðar áherslubreytingar og mikill viðsnúningur í rekstri. Nýjar tekjustoðir hafa myndast, breytingar voru gerðar á yfirstjórn fyrirtækisins og okkur er að takast að koma rekstrinum í gott jafnvægi. Nýlega ákváðum við að auka tíðni Mannlífs sem kemur nú út alla föstudaga og lífstílsvefurinn mannlif.is er í stöðugri þróun þannig að við erum bjartsýn á framhaldið þó umhverfið sé vissulega krefjandi um þessar mundir,” segir Halldór.

Fjárfestingafélagið Dalurinn var einnig stærsti hluthafi Pressunnar sem var lýst gjaldþrota í desember. Í september voru flestir fjölmiðlar Pressunnar seldir út úr fyrirtækinu til Frjálsrar fjölmiðlunar, í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar, sem Dalsmenn segja að hafi verið gert að þeim forspurðum.