Bandaríkin eru að missa stöðu sína sem stærsta og öflugasta hagkerfi heims. Þetta sagði Robert Zoellick, forseti Alþjóðabankans í samtali við fjölmiðla í gærkvöldi en hann er nú staddur í Istanbúl í Tyrklandi á fundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

„Ein af afleiðingum þeirra erfiðleika sem nú ríkja á alþjóðamörkuðum er sú að hlutfall valdamestu hagkerfanna mun breytast,“ hefur Reuters fréttastofan eftir Zoellick og minnti á að bandaríska hagkerfið hefði nú upplifað samdrátt í nærri tvö ár.

„Þetta mun leiða til þess að valdahlutföll stærstu hagkerfanna mun breytast töluvert. Önnur hagkerfi munu reiða sig mun minna á neyslu og viðskipti bandarískra neytenda í framtíðinni.“

BBC fjallar einnig um ummæli Zoellick og segir að merki um frekari áhrif annarra hagkerfa séu þegar orðin ljós. Þannig hafi Kínverjar t.a.m. nýlega fengið fast sæti í 24 sæta stjórn AGS svo dæmi sé tekið.

Þá greinir BBC einnig frá því að fjármálaráðherra sjö stærstu iðnríkja heims (G7), þ.e. Bandaríkjanna, Japans, Þýskalands, Bretlands, Frakklands, Kanada og Ítalíu hafi fundað um helgina í Istanbúl. Niðurstaða fundarins var, að sögn BBC, að enn væri of snemmt að leggja árar í bát til að styrkja hagkerfin þar sem þau eru enn brothætt og markaðsaðstæður fara hægt batnandi.

Þá samþykktu fjármálaráðherrar G7 ríkjanna jafnframt að efla hagkerfi ríkja sinna með frekari innspýtingu fjármagns þangað til búið væri að tryggja stöðugleika.

Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna tók, eins og gefur að skilja, ekki undir orð Zoellick. Hann sagði að hafið væri langt og hægfara bataferli í bandaríska hagkerfinu og það myndi ná fyrri styrk. Hann sagði þó að enn væri langt í land að einkageirinn tæki við sér með þeim hætti að ekki væri frekari þörf á aðstoð hins opinbera.