Robert Zoellick, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra og viðskiptafulltrúi núverandi Bandaríkjastjórnar, var í gær formlega tilnefndur af George Bush forseta í embætti forstjóra Alþjóðabankans. Zoellick tekur við embættinu af Paul Wolfowitz, sem þurfti að segja af sér í kjölfar þess að sérstök rannsóknarnefnd úrskurðaði að hann hefði brotið siðareglur bankans þegar hann hækkaði laun ástkonu sinnar. Robert Zoellick mun taka við stöðunni þann 30. júní næstkomandi og þarf stjórn Alþjóðabankans að samþykkja tilnefningu Bandaríkjanna. Slíkt er hins vegar aðeins talið vera formsatriði, en Zoellick nýtur mikillar virðingar á heimsvísu fyrir embættisstörf sín í gegnum tíðina.