Robinhood, fyrirtæki sem heldur úti smáforriti fyrir viðskipti hlutabréfa án þóknana, hyggst segja upp 23% af starfsfólki sínu eða um 780 manns. Financial Times greinir frá.

Fyrirtækið sagði í færslu á heimasíðu sinni að hópuppsögnin sé liður í endurskipulagningu á rekstrinum sem felur einnig í sér að tveimur skrifstofum þess verður lokað.

Vlad Tenev, annar stofnandi Robinhood, sagði að hnignun bandaríska hagkerfisins sem horfir nú fram á mestu verðbólgu í rúma fjóra áratugi, ásamt hruni á rafmyntamarkaðnum hafi dregið verulega úr notkun forritsins.

Sjá einnig: Líkir Robinhood við spilavíti

Robinhood naut góðs af auknum áhuga almennings á hlutabréfamörkuðum í Covid-faraldrinum. Fyrirtækið, sem var skráð á markað í fyrr rúmu ári síðan, státaði sig af því að helmingur af nýjum vörslureikningum almennra fjárfesta í Bandaríkjunum á árunum 2016-2021 hafi verið á sinum vettvangi.

Hlutabréfa- og rafmyntamarkaðir hafa þó kólnað nokkuð á síðustu mánuðum og samhliða því hefur hlutabréfaverð Robinhood hefur lækkað um 50% í ár.