Heimurinn stendur frammi fyrir gríðarlegum tæknibreytingum og fjórða iðnbyltingin stendur nú yfir. 65% grunnskólabarna mun á næstu árum vera við störf sem eru ekki til í dag. Áskorunin sem blasir við er hvernig menntakerfið eigi að búa sig undir breyttan veruleika. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Sigurðar Ólasonar, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel, á sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Hörpu í síðustu viku.

Áskoranir vegna breytinga

Sigurður sagði áskoranirnar vegna breytinga sem eru að ganga í garð miklar á málstofunni Hvar verðum við eftir 20 ár?  Heimsmyndin sé að breytast og þungamiðjan að færast til Asíu. Stærsta hagkerfið er í Kína og þar eru stærstu borgirnar.

„Þarna verður markaðssvæðið okkar. Spurningin er sú hvernig við, hér á hjara veraldar, ætlum að nálgast þennan nýja veruleika. Lykilatriðið er að tekið verði samstillt átak með stjórnvöldum og skapað það umhverfi sem nauðsynlegt er til þess að vera í fremstu röð. Við hjá Marel ákváðum fyrir mörgum árum að við ætlum að vera leiðandi í matvælaframleiðslu í heiminum. Okkur hefur tekist það með ykkar aðstoð og annarra viðskiptavina okkar. Við sjáum fyrir okkur heim þar sem gæðamatvæli eru framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Með viðskiptavinum okkar ætlum við að umbylta matvælaframleiðslu í heiminum. Við vitum að árið 2050 verða 10 milljarðar manna á jörðinni og þá þarf að brauðfæða. Er það hægt? Svarið er já,“ segir Sigurður.

Hann segir að það verði m.a. gert með aukinni neyslu á fisk. Einnig þurfi að auka nýsköpun innan sjávarútvegs. Vöruþróun þurfi einnig að eflast innan tæknivinnslunnar.

Úr veiðidrifinni virðiskeðju í markaðsdrifna

„Róbótavæðingin fór af stað í þriðju iðnbyltingunni en matvælaiðnaðurinn varð í rauninni eftir. Þar liggja tækifæri okkar,“ segir Sigurður.

Hann segir framtíðina heildarvinnslulausnir þar sem stuðst er við upplýsingatækni og gervigreind sem munu leiða til þess að ákvarðanataka í matvælaiðnaði verði sjálfvirk.

Sigurður segir að nú þegar séu komnir fram róbótar sem notaðir eru í matvælaiðnaði. Hröð þróun sé í þessum efnum.

„En við þurfum að fullvinna nær auðlindinni þannig að dragi úr flutningi á heilum fisk. Einnig þarf að útrýma erfiðum og einhæfum störfum og þar gegna róbótar hlutverki.“

Sigurður segir að það sem gerist núna með fjórðu iðnbyltingunni sé aukin róbótavæðing í matvælaiðnaði. Hún muni engin áhrif hafa á sjálfbærni, gæði eða matvælaöryggi en hún ásamt fleiri þáttum muni valda röskun á virðiskeðjunni sem fari úr því að vera veiðidrifin virðiskeðja yfir í markaðsdrifna virðiskeðju.

Aukinni sjálfvirkni fylgi augljóslega miklar áskoranir og sum störf hverfi. Þess vegna sé mikilvægt að búa sig undir breytta framtíð. Menntakerfið ekki síst þurfi að laga sig að breyttum veruleika.