Á fréttaveitu Reuters er í dag haft eftir forsvarsmönnum svissneska lyfjarisans Roche að litið sé á samstarf fyrirtækisins við deCODE sem langtímaverkefni. En í kjölfar samnings deCODE við Merck í febrúar vöknuðu spurningar um horfurnar í samstarfinu við Roche. Á þetta er bent í Vegvísi Landsbankans.

Þar er ennfremur bent á að ljóst er að samstarfsaðilum deCODE hefur fjölgað og vægi Roche farið nokkuð minnkandi í rekstri félagsins, en miðað við orð forsvarsmanna Roche nú eru ekki líkur á öðru en að áframhald verði á samstarfi fyrirtækjanna í lyfjaþróun. Meginmarkmið deCODE er að ná árangri í eigin lyfjaþróun, samningarnir við Roche ganga hins vegar út á lyfjaþróun Roche. Nái deCODE árangri í eigin lyfjaþróun mun vægi þjónustusamninga á borð við þann sem fyrirtækið gerði við Roche minnka í framtíðinni.

Ekki má þó líta framhjá því að samstarfið við Roche hefur verið deCODE gríðarlega mikilvægt. Áfangagreiðslur vegna samstarfsins hafa vegið þungt í tekjum félagsins fram til þessa, og munu að öllum líkindum gera það áfram, a.m.k. á næstu misserum.