„Það er röð út að dyrum allan daginn,“ segir Oddur Smári Rafnsson matreiðslumaður og annar eigenda Brikk - brauð & eldhús. Staðurinn opnaði sextánda júní síðastliðinn og hafa viðtökurnar verið framar björtustu vonum eigendanna. „Við ætluðum að fara bara hægt af stað án þess að auglýsa, af því að við byrjuðum bara tveir, eigendurnir, ásamt einum bakara. En þetta sprakk bara allt út. Þetta er algjört lúxusvandamál eins og maður segir,“ bætir hann við.

„Brikk er í grunninn bakarí - en við vildum ekki kalla þetta bakarí - þar sem  að við erum að bjóða upp á létta rétti líka og aðeins meiri mat. Það kemur til  að bakgrunnur minn er í matreiðslu og Davíð er bakari. Við fórum þá leið að  kalla þetta brauð & eldhús,“ segir Oddur. Staðurinn er við Norðurbakka 1 í miðbæ Hafnarfjarðar. Eigendur Brikk eru þeir Davíð Magnússon bakari, Oddur Smári Rafnsson matreiðslumaður og Einar Benediktsson. „Einar er reyndar búsettur í London, en hann sparkaði í rassinn á okkur þannig að við fórum af stað með þetta,“ bætir Oddur við.

Vilja lyfta menningunni á hærra plan

Oddur Smári segir að hugmyndin með opnun Brikk sé að lyfta bakarísmenningunni á hærra plan. „Við Davíð unnum saman í lengri tíma og ég grínaðist oft með það að maður þyrfti eiginlega ekkert að kíkja í borðin þegar maður færi í bakarí, það var alltaf það sama í boði í öllum bakaríum landsins. Þaðan kom hugmyndin af staðnum. Við viljum ekki hafa borðið eins alla daga, við reynum alltaf að koma með eitthvað nýtt: Við erum ekki að keyra á 300 vöruliðum, heldur erum við með um 25 vöruliði á dag í mesta lagi. Það er því reynt að hafa meiri breytileika.“

Hann bætir við að Brikk framreiði samloku dagsins á hverjum degi, sem er matreidd jafnóðum. „Það er ferskleikinn sem við erum að horfa til. Svo höfum við verið að leika okkur með flatbrauð og salöt,“ segir Oddur. Einnig er boðið upp á ýmsar tegundir af brauðsalötum, bæði þessi klassísku ásamt því að fara nýjar leiðir. „Avocado-salatið er það lang vinsælasta hjá okkur,“ bætir hann við.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • E8 fyrirtækjasetur býður minni fyrirtækjum einstakar skrifstofur eða stök skrifborð til leigu.
  • Hlutfall útlána viðskiptabankanna til ferðaþjónustunnar telst lágt og er það mat sérfræðinga að félög utan hins hefðbundna bankakerfis hafi að miklu leyti fjármagnað fjárfestingu í ferðaþjónustu.
  • Ekki eru allir á því að hægari fjölgun ferðamanna sé neikvæð.
  • Lögmaður Samkeppnisráðgjafar telur ólíklegt að Samkeppniseftirlitið muni hafna áformuðum samrunum olíufélaga og smásölufélaga.
  • Verulegur viðsnúningur hefur orðið á rekstri Eirar hjúkrunarheimilis.
  • Ítarlegt viðtal við Sigurð Pálsson, forstjóra BYKO.
  • Bjarni Guðjónsson sem nýlega gekk til liðs við fyrirtækjaráðgjöf VÍS, er tekinn tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um nýlega auglýsingaherferð ÁTVR.
  • Óðinn fjallar um hagstefnur á krepputímum.