Það var í maí árið 1995 sem mér datt í hug að áhugavert gæti verið að kaupa Frjálsa verslun. Ég man það vegna þess að ég lá lasinn heima í rúmi. Skömmu áður hafði ég orðið fertugur og velti fyrir mér hvort þessi tímamót væru ekki tilvalin til þess að hasla sér völl á nýjum vettvangi. Talnakönnun hafði starfað í rúmlega tíu ár, fyrst og fremst sem ráðgjafarfyrirtæki á sviði tölfræði og rekstrar, en við vorum þó líka í útgáfu; gáfum út upplýsingarit um ársreikninga fyrirtækja, Íslenskt atvinnulíf. Auk þess höfðum við keypt Vísbendingu, vikurit um viðskipti og efnahagsmál, frá Kaupþingi árið 1993.

Ég þekkti Magnús Hreggviðsson, stjórnarformann Fróða, sem þá gaf út Frjálsa verslun, lítillega. Til þess að gera langa sögu stutta gerði ég honum þarna um vorið tilboð fyrir hönd Talnakönnunar, hann hafnaði og viðræður fjöruðu út. Í september gerði ég svo nýtt tilboð sem hann tók. Afráðið var að Frjáls verslun flytti milli eigenda um áramótin 1995-6.

Til hvers er Frjáls verslun?
Svo vel vildi til að hugmyndir okkar Jóns G. Haukssonar, ritstjóra Frjálsrar verslunar, fóru vel saman um megintilgang blaðsins, það er að fjalla með jákvæðum hætti um frjáls viðskipti og það fólk sem við þau vinnur. Blaðið á líka að vera gagnrýnið. Það kafaði oft djúpt í málefni, stundum dýpra en sumir hefðu viljað. Það á að vera fallegt og efnismikið, skila áhugaverðum og fróðlegum upplýsingum til lesenda og þeir verða að geta treyst því sem í blaðinu stendur.

Blaðið á alltaf að taka afstöðu með frelsi í viðskiptum og heiðarlegum viðskiptaháttum, en ekki hika við að gagnrýna það sem miður fer og benda á gáleysislega og óheiðarlega viðskiptahætti. Þeir sem hafa fylgst með þjóðfélagsbreytingum hér á landi geta ekki efast um að frjáls verslun, heiðarleg viðskipti og óheft samkeppni eru besta kjarabót almennings. Við Jón vorum líka sammála um að blaðið ætti að gera konum í viðskiptalífinu góð skil. Ritsjórinn og blaðið voru reyndar ítrekað verðlaunuð fyrir það.

Ýmsir veltu því fyrir sér hvers vegna Talnakönnun ynni á tveimur ólíkum sviðum, ráðgjöf og útgáfu. En þetta voru einfaldlega áhugamál mín. Í barnaskóla gaf ég út hverfisblað með fjölbreytilegu efni ásamt félögum mínum. Síðan hefur áhugi á útgáfu alltaf blundað í mér en stærðfræði og rekstur fyrirtækja ekki síður. Tómas bróðir minn orðaði það svo í afmælisræðu að ég hefði farið út í heim til þess að læra að reikna, hefði svo komið heim og ekki hætt að skrifa síðan.

Í ljósi þess að Viðskiptablaðið keypti Frjálsa verslun af Heimi, dótturfélagi Talnakönnunar, árið 2017, er gaman að rifja það upp að Talnakönnun átti á sínum tíma 5% hlut í Viðskiptablaðinu, en við seldum þann hlut þegar við keyptum Frjálsa verslun þannig að ekki yrðu hagsmunaárekstrar!

Fyrstu mánuðirnir
Reksturinn fór betur af stað en við höfðum þorað að vona. Frá fyrsta blaði voru tekjur af blaðinu meiri en okkur hafði verið gefið upp. Þar kom örugglega tvennt til. Efnahagsástand í landinu fór batnandi og blaðið var í brennidepli hjá okkur, en aðeins eitt af mörgum blöðum Fróða.

Hjá Fróða hafði í sparnaðarskyni aðeins hluti blaðsins verið litprentaður. Ég ákvað að fyrsta blaðið hjá okkur yrði litprentað. Það varð miklu eigulegra blað þannig og í kjölfarið ákvað ég að þaðan í frá yrði allt blaðið prentað í lit. Mér finnst svolítið gaman að því að allan tímann var sami prentsamningur í gildi. Fyrst hjá G.Ben, eftir það G.Ben-Eddu, svo Grafík, næst Gutenberg og loks Odda, en þessar prentsmiðjur sameinuðust koll af kolli.

Við fórum í mikið áskriftarátak og segja má að blaðið hafi runnið út eins og heitar lummur. Við vorum með nokkra sölumenn sem stóðu sig afburðavel. Þegar þeir höfðu náð einhverjum áfanga keypti ég kampavín og opnaði með viðhöfn. Það var þá sem ég komst að því að þeir voru allir þurrir alkar!

Allan þann tíma sem Frjáls verslun var gefin út af Talnakönnun og síðar dótturfyrirtækinu Heimi var Jón G. Hauksson ritstjóri. Við Jón höfum þekkst síðan í menntaskóla þar sem við vorum bekkjarbræður. Ég var ekki afskiptasamur um efni blaðanna, en kom þó öðru hvoru með hugmyndir að efni. Mér datt í hug að hafa viðtal Davíð Oddsson forsætisráðherra í fyrsta tölublaði hjá okkur, hafði samband við hann og hann var til að ræða við Jón.

Frjáls Verslun
Frjáls Verslun
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þetta ár, 1996, voru forsetakosningar og Davíð var einn þeirra sem orðaður var við forsetaembættið. Við gerðum skoðanakönnun um fylgi þeirra hugsanlegu frambjóðenda sem mest var rætt um þá. Berlega kom í ljós að Davíð hafði lítið fylgi sem forseti. Jón ákvað að birta niðurstöðurnar undir forsíðu-fyrirsögn: Fólk vill ekki Davíð í framboð. Á forsíðunni var svo mynd af Davíð og þremur öðrum sem spurt var um. Þannig að á fyrstu tveimur blöðunum hjá okkur var Davíð á forsíðunni!

Davíð hélt að ég hefði skáldað þessa könnun vegna þess að Guðrún Pétursdóttir, frænka mín, var í framboði, en það var auðvitað ekki eins og hann fékk staðfest þegar hann lét annan aðila gera slíka könnun fyrir sig.

Tekjublaðið
Frjáls verslun hafði um nokkurt skeið birt yfirlit um tekjur framámanna í viðskiptalífinu. Þetta fór í taugarnar á mörgum sem fannst nærri sér gengið við birtinguna. Hópur manna sendi kvörtun til Tölvunefndar sem úrskurðaði að ekki mætti birta upplýsingar af því tagi nema þær tvær vikur sem álagningarskrá skatta væri opin. Fjármálaráðuneytið bætti svo um betur og bannaði mönnum að reikna laun útfrá útsvari sem birtist í álagningarskránni.

Ég birti í Vísbendingu „aðvörun til lesenda“ þar sem reiknuð voru laun Vilhjálms Egilssonar: „Ef lesendur deildu í útsvarið kr. 581.408 með 0,084 og fengju árstekjur kr. 6.921.524 þá væri slíkt óheimilt með öllu. Jafnframt er bannað að deila með 12 í þessa tölu og fá út mánaðartekjur 576.794 kr. fyrir árið 1994. Loks skyldu menn varast að margfalda þessa tölu með stuðlinum 1,105 og fá út kr. 637.357 m.v. febrúar 1996 því slíkt svarar nokkurn veginn til hækkunar á launavísitölu á tímabilinu.“ Reglugerðin var í kjölfarið dregin til baka við lítinn orðstír.

Ljóst var að við gætum ekki gefið út tekjublaðið með sama hætti og áður nema brjóta úrskurð Tölvunefndar. Mér datt þá í hug að við myndum flýta vinnslunni og senda blaðið til áskrifenda innan þessa hálfa mánaðar. Það tókst með naumindum. Árið á eftir gekk vinnslan hraðar og okkur tókst að selja blaðið í þrjá daga innan frestsins. Að honum loknum auglýstum við svo: Bannað að lesa tekjublaðið í dag.

Smám saman styttist vinnslutíminn þangað til við náðum að vinna blaðið á einum degi og gefa það út daginn eftir að álagningarskráin var opnuð. Blaðið seldist í bílförmum í lausasölu og auglýsingasala gekk vel. Við fengum auðvitað ekki að vera friði. Heimdellingar voru lengi með horn í síðu blaðsins og reyndu að koma í veg fyrir útgáfu þess. Einu sinni hlekkjaði einn forkólfur þeirra sig allan daginn við skrána í afgreiðslu Skattstofunnar í Reykjavík með nöfnum frá A-E. Hann varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hann komst að því um kvöldið aðþví að starfsfólk okkar vann upp úr skrám í bakherbergi og varð ekki vart við þessa hetjulegu baráttu. En henni voru gerð góð skil í fjölmiðlum og hún jók áhugann á blaðinu, þannig að okkur var alltaf hlýtt til Heimdallar.

Talnakönnun
Talnakönnun
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Maður ársins
Annað efni sem alltaf vakti mikla athygli var útnefning á manni ársins í viðskiptalífinu. Hugmyndin var sú að verðlauna titilhafa og fyrirtæki sem hafði gengið vel og líkur væru á að fyrirtækið gengi vel á næstunni. Við horfðum líka á frumkvöðla, annaðhvort í eigin fyrirtæki eða þá sem settu mark sitt á það félag sem þau stjórnuðu.

Lengi gekk sú saga að menn ársins hjá Frjálsri verslun færu lóðbeint á hausinn. Það var reyndar rangt, árið 2007 hafði enginn þeirra á 20 ára ferli útnefningarinnar orðið gjaldþrota. Það breyttist árið 2008 þegar efnahagskerfið hrundi. Árið 2010 birti blaðið forsíðumynd af ellefu hrunverjum. Níu þeirra höfðu orðið menn ársins.

Þegar Bónusfeðgar, Jóhannes og Jón Ásgeir fengu verðlaunin vissu fæstir hver sonurinn var. Ég man að ég var hræddur um að ég myndi ekki óska honum til hamingju í veislunni vegna þess að ég þekkti hann ekki í sjón. Þetta var fyrsta umdeilda útnefningin okkar. Þeir feðgar þóttu harðskeyttir í viðskiptum. Samt held ég að fáir hafi deilt um það á þeim tíma að Bónus hafi verið góð búbót fyrir neytendur.

Í tvígang urðu deilur í dómnefndinni um endanlega niðurstöðu. Árið 2002 þegar Björgólfsfeðgar og Magnús Þorsteinsson, viðskiptafélagi þeirra, fengu verðlaunin og árið 2005 þegar Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson í Kaupþingi hrepptu hnossið. Í bæði skiptin leiddi útnefningin til þess að dómnefndarmaður sagði af sér. Eftir á að hyggja hefðum við átt að hafa einróma niðurstöðu sem skilyrði.

Miklu oftar tókst vel til. Alli ríki, Hörður Sigurgestsson, feðgarnir í Fjarðakaupum og Valdimar í Kjörís eru dæmi um vel heppnaðar útnefningar. Þau eru miklu fleiri. Best fer á því að verðlauna frumkvöðla sem hafa langa sögu í viðskiptum. Spútnikarnir eru hættulegri.

Hrunið
Haustið 2008 var ömurlegur tími í hjá Heimi. Frjáls verslun var engin undantekning. Blaðið um 300 stærstu fyrirtækin er flaggskip útgáfunnar. Útgáfa þess hefur dregist fram eftir hausti og í þetta sinn komþað okkur í koll. Innan viku frá sjónvarpsræðu Geirs Haarde hafði fjórðungur auglýsenda í blaðinu hætt við birtingu. Þjóðin var í losti, viðskiptalífið var í losti og við vorum í losti. Þetta haust var blaðið í fyrsta sinn í rúman áratug ekki gefið út í bókarformi. Hefði Heimur ekki verið nánast skuldlaus nema við móðurfélagið hefðum við ekki komist í gegnum tímabilið eftir Hrun.

Við hlutum auðvitað að spyrja okkur hvort Frjáls verslun hefði sofið á verðinum fyrir hrun. Jón G. Hauksson sagði um þetta: „Ef útrás og kaup á erlendum fyrirtækjum eru efst á baugi eru það fréttir sem fjölmiðlarnir flytja. Viðskiptablöð hljóta að endurspegla það sem fyrirtækin og forstjórarnir gera. Fjölmiðlar segja fréttir af atburðum og fólki – líkt og veðurfræðingar segja fréttir af veðri. Þeir segja frá sólskini án þess að bæta því alltaf við neðanmáls að það geti komið rigning eftir einhverja daga eða vikur. Ég er sammála því að fjölmiðlar hefðu átt að vera gagnrýnni á útrásina og þá sérstaklega ákafa bankanna, en það hefðu allir átt að vera það, þar er enginn undanskilinn. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa ríka upplýsingaskyldu en þeir eiga ekki að hugsa fyrir fólk.

Það sá enginn þetta bankahrun fyrir með þeim hætti sem það gerðist; að allt bankakerfið myndi hrynja í heilu lagi – og hvað þá það sukk og óráðsíu sem einkenndi rekstur bankanna síðustu mánuðina. Þeim var augljóslega stjórnað í örvæntingu. Ég var einn þeirra sem lofaði útrásina en benti raunar oft á þær blikur sem væru á lofti varðandi miklar skuldir og sterka stöðu krónunnar á tímum viðvarandi viðskiptahalla. Það höfðu allir áhyggjur af skuldunum – en flestir töldu að þetta væri mál erlendu bankanna sem lánuðu og fyrst þeir væru svona vitlausir að lána íslenskum bönkum og fyrirtækjum, þá væri það þeirra að bera áhættuna.“

Skemmtilegur tími
Á rúmlega 20 árum var ýmislegt brallað. Frjáls verslun stóð stundum fyrir opnum fundum. Við fengum til dæmis Björn Lomborg, sem síðar varð heimsþekktur fyrir skrif sín um umhverfismál, til þess að tala á fundi með Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtakanna.

Einu sinni vorum við líka með útvarpsþátt á RÚV. Það var reyndar í undirbúningi hans sem ég hitti Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í fyrsta sinn. Ég vissi ekkert um hennar skoðanir, en grunaði að hún væri einn af vinstri gemlingunum á Ríkisútvarpinu!

Svo héldum við úti vefnum heimur.is. Við Jón G. skrifuðum þar vikulega pistla. Þetta var allt mjög gaman. Áður en samfélagsmiðlar höfðu náð jafnmikilli útbreiðslu og nú var þetta besta leið okkar til þess að ná beinum tengslum við lesendur.

Hefur okkur eitthvað miðað?
Fyrir 20 árum velti ég fyrir mér stöðunni í viðskiptalífinu: „Enn eru samt hindranir á ýmsum sviðum. Til dæmis er innflutningur landbúnaðarvara að mestu bannaður. Íslendingar mega kaupa hlutabréf erlendis, en útlendingar mega ekki kaupa hluti í sjávarútvegsfyrirtækjum. Ríkið er enn með yfirburðastöðu í mörgum greinum þótt nú sjái vonandi fyrir endann á ríkisreknum bönkum og ríkisreknu símafyrirtæki. Rekstur heilbrigðisstofnana er enn á sovétstigi. Eitt merkilegasta skrefið í þá átt að efla almennan skilning á atvinnulífinu er eflaust viðleitni stjórnvalda í þá átt að gera almenning að kapítalistum með skattaívilnunum vegna hlutabréfakaupa og sölu ríkisbankanna.“

Okkur hefur sorglega lítið miðað. Ríkið rekur ekki lengur símafyrirtæki, en annað er svipað nema ekki eru sömu skattaívilnanir vegna hlutabréfakaupa og áður voru. Ef eitthvað er olli hrunið því að nú er almenningur tortryggnari í garð fyrirtækja en fyrir 20 árum.

Blað eins og Frjáls verslun hlýtur alltaf að þróast með breyttum tímum. Nú eiga prentmiðlar í vök að verjast, en það kemur eitthvað í staðinn. Þó að hér sé meira frjálsræði en fyrir 80 árum eru enn margir sem vilja leggja stein í götu frelsisins, stundum jafnvel þeir sem síst skyldi. Þá þarf rödd frelsis og frjálsra viðskipta, bæði í vörn og sókn!

80 ára afmælisrit Frjálsrar verslunar má finna á helstu sölustöðum. Einnig er hægt að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .