Starfshópur um flugvallarkosti í höfuðborginni, sem kallaður hefur verið Rögnunefndin, segir hagkvæmast að byggja flugvöll í Hvassahrauni. Vísir greinir frá þessu.

Hópurinn kynnir nú skýrslu sína á Nauthóli í Reykjavík, en hann telur að allir þeir staðir sem nefnir eru í skýrslunni geti rúmað þá starfsemi sem nú er í Vatnsmýri. Þeir geti jafnframt verið varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll og öfugt eins og reyndin sé með Reykjavíkurflugvöll í dag.

Þeir staðir sem eru nefndir eru Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun, Löngusker og Vatnsmýri í breyttri mynd.

Segir hópurinn að Hvassahraun komi vel út í samanburði við aðra flugvallarkosti þegar litið sé til þátta eins og veðurfars, rýmis og hindrana, kostnaðar og umhverfismála. Þá komi Hvassahraun best út þegar horft sé til möguleika flugvallarstæða til að taka við flugumferð eða starfsemi umfram það sem nú sé í Vatnsmýri.