Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri starfsemi norska laxeldisfyrirtækisins AkvaFuture hér á landi, er á förum frá fyrirtækinu, að því er kemur fram á vef IntraFish .

Fiskeldisfrumvarp sjávarútvegsráðherra, sem síðar var svo samþykkt af Alþingi og sett í lög á vordögum 2019, setti stein í götu norska félagsins og varð til þess að áætlanir um að setja upp laxeldi í lokuðum kvíum í Eyjafirði voru settar á ís. Algjör óvissa er um hvort eða hvenær norska félagið getur hafið starfsemina og virðist þessi óvissa hafa orðið til þess að Rögnvaldur hafi ákveðið að ganga frá borði.

Rögnvaldur mun í byrjun september taka við nýju starfi sem verkefnastjóri hjá Centre for the Ocean and the Arctic sem staðsett er í Noregi.