Í maí síðastliðnum var félagið Reykjavík Rocks stofnað af Unnari Helga Daníelssyni og þremur öðrum. Um er að ræða ferðaþjónustufyrirtæki sem gerir allt það sem kúnninn vill gera, segir Unnar Helgi í samtali við Viðskiptablaðið.

Unnar Helgi er kvikmyndagerðarmaður og segir hann að hugmyndin að Reykvík Rocks hafi sprottið út frá því. „Ég var alltaf með hópa í kvikmyndagerðinni og var einnig að vinna mikið með hópum úr skemmtanageiranum.“ Hann segir að reksturinn hafi gengið mjög vel í sumar, en alls hefur Reykjavík Rocks sinnt 74 kúnnum á síðasta einum og hálfa mánuði. Aðspurður um hvað þeir gera með ferðamönnunum segir Unnar að þjónustan sé mjög persónuleg, í raun sé allt gert sem kúnnarnir vilja gera.

VIP á helstu stöðum

Á heimasíðu Reykjavík Rocks kemur fram að þjónustan sé fyrir þá sem vilja skemmta sér konunglega á Íslandi. Félagið sér um allt fyrir ferðamanninn frá A til Ö og bókar meðal annars túristaferðir ef vilji er til þess. „Við stefnum að því að veita viðskiptavinum okkar bestu mögulegu lífsreynslu af íslensku næturlífi,“ segir á vefsíðunni. Til að svo geti orðið býðst kúnnum VIP þjónusta á öllum helstu skemmtistöðum borgarinnar.