*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 17. mars 2019 17:46

Rokkið laðar að ferðamenn

Margar nýjungar í Rokksafni Íslands sem fagnar fimm ára afmæli á næstunni.

Ritstjórn
Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar og Rokksafns Íslands,
Haraldur Guðjónsson

Nú í lok febrúar komu nýsköpunar- og hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi árið 2019 í hlut Rokksafns Íslands. Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar og Rokksafns Íslands, segir samsetningu gesta safnsins hafa breyst töluvert á þeim fimm árum sem það hefur verið opið.  

„Fyrsta sýningin okkar var sýning á munum frá Páli Óskari, og hún sló heldur betur í gegn enda höfðar Páll Óskar til breiðs aldurshóps. Ég trúi því að um 25.000 manns hafi séð þá sýningu fyrsta árið. Annars hefur aðsóknin hér í húsið verið nokkuð jöfn ár frá ári, um 12.000-15.000 gestir sem heimsækja safnið árlega.

Í byrjun voru þetta að mestu leyti Íslendingar, eða um 80 prósent, en svo hefur fjöldi erlendra gesta aukist svo um munar með auknum fjölda ferðamanna en núna eru um 80 prósent gesta erlendir gestir, sem annað hvort stoppa hér á leið inn eða út úr landinu. Það gæti líka verið að margir Íslendingar hafi þegar séð sýningarnar en við erum núna að sjá meira af því að vinnustaðahóp- ar sem og skólar og félagasamtök heimsæki safnið,” segir Tómas.

Tómas segir gagnvirkni hafa verið leiðarljósið í hönnun og skipulagningu safnsins. „Þegar ég byrja hér var ég ekki búinn að sjá nein söfn hér á landi vera með þessa gagnvirkni sem ég hafði séð meðal annars í Noregi og Svíþjóð. Við höfum verið með spjaldtölvur þar sem gestir hafa getað nýtt sér hið svokallaða RokkApp, sem gerir gestum kleift að hlusta á tónlist listamannanna sem fjallað er um í sýningunni og lesið sér nánar til um hvert tímabil,“ segir Tómas.

Fyrir skömmu kom safnið með nýtt sýningaratriði sem unnið er í samstarfi við margmiðlunarfyrirtækið Gagarín. Um er að ræða 12 metra breiðan vegg, en sögu tónlistarmanna og hljómsveita er varpað á hann með hjálp nútímatækni.

„Okkur langaði að gera sýninguna gagnvirkari og fara með safnið aðeins fram í tímann tæknilega séð. Við höfðum samband við Gagarín og úr varð samstarf þar sem við hittumst reglulega á um 12 mánaða tímabili og unnum alla hugmyndavinnu saman. Útkoman er það sem við nefnum plötuspilarann, 12 metra breiður lifandi veggur með þremur stöðvum, sýningar- atriði sem hleypir miklu lífi í safnið og er að okkar mati besta hugmyndin sem kom úr hug- myndavinnunni með Gagarín.“

Plötuspilarinn virkar þannig að í gegnum stjórnborð, sem lítur út eins og plötuspilari, getur gesturinn valið plötu og sett á fóninn. Gesturinn snýr svo plötunni og frá stöðinni er tónlistarsögunni varpað á vegg þar fyrir framan. „Útkoman er sambland af skrifaðri sögu, ljósmyndum, myndbönd- um og tónlist, sem var aðalatriðið. Gesturinn er þannig meira við stjórnvölinn hvað hann skoðar og hversu hratt hann fer í gegnum sögu hvers listamanns, og svo er hægt að snúa plötunni við og þá er allt efnið á ensku, þannig að þetta hentar bæði íslendingum og erlendum gestum,“ segir Tómas.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Tómas young Rokksafn