Rob Long er handritshöfundur og framleiðandi sjónvarpsefnis í Bandaríkjunum. Fyrsta vinnan hans að loknu háskólanámi var sem höfundur fyrir gamanþáttaröðina Cheers, sem hér var þekkt sem Staupasteinn, og stýrði hann framleiðslu þáttanna síðustu tvö árin og var tilefndur til Emmy og Golden Globe verðlauna bæði þessi ár. Síðan þá hefur hann unnið að gerð fjölda sjónvarpsþáttaraða, sem notið hafa mismikillar velgengni, nú síðast þáttaraðarinnar Sullivan & Son, sem snýst um kóreska fjölskyldu í Bandaríkjunum.

Long er einnig mjög virkur á hægri væng bandarískra stjórnmála og hefur um árabil skrifað í tímaritið NationalReview, auk þess sem hann hefur skrifað greinar fyrir TIME, Newsweek, Wall Street Journal og Los Angeles Times. Long kallar sjálfan sig í gríni RINO, en það er neikvætt orð sem notað er yfir nokkurs konar gervi-hægrimenn innan Repúblikanaflokksins og stendur skammstöfunin fyrir „Republican In Name Only“. Hann er frjálslyndari en flestir íhaldsmenn þegar kemur að samfélagsmálum eins og hjónaböndum samkynhneigðra, en er mjög harður þegar kemur að útgjöldum ríkisins. Hefur hann miklar áhyggjur af vaxandi ítökum ríkisins í lífi hins venjulega manns.

Long stofnaði fyrir nokkrum árum, ásamt Peter Robinson, fyrrverandi ræðuskrifara fyrir Ronald Reagan, vefsíðuna Ricochet.com, sem er eins konar samfélagsmiðill og bloggveita fyrir fólk hægra megin við miðjuna í bandarískum stjórnmálum. Nokkrir fastir pennar skrifa á síðuna og eru þar á meðal hagfræðingar, stjórnmálamenn, rithöfundar og aðrir þekktir einstaklingar, en einnig geta allir meðlimir síðunnar annaðhvort skrifað athugasemdir við greinar annarra eða skrifað sínar eigin greinar. Tengd síðunni er svo útgáfa nokkurra hlaðvarpa, þar sem áherslan er á stjórnmál, lögfræði, alþjóðamál eða dægurmenningu.

Ógeðsleg umræða

„Við Peter vorum að ræða einn daginn hvað það væri við vefinn sem okkur líkaði ekki við. Flestar stjórnmálasíður voru í grunninn eins. Höfundurinn skrifaði fyrir lesendur og svo fyrir neðan kom svo fen af ógeðslegum athugasemdum þar sem fólk reif hvert annað og höfundinn í sig. Öðru hverju kom það fyrir að einhver skrifaði djúpa og vel ígrundaða athugasemd, en hún sökk undir eins í þetta fen. Það sem okkur þótti vanta í þetta voru raunverulegar samræður fólks, bæði við höfund greinarinnar og hvert við annað. Þessu vildum við breyta.“

Nánar er spjallað við Rob í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .