„Lögfræðingar lánasjóðsins telja að samningarnir séu í lagi og standist lög. Lögfræðingar sveitarfélaganna telja hins vegar að þeir séu ólöglegir. Þá er rökrétt að hlutlaus aðilil skeri úr um það,“ segir Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga. Bæði sveitarfélögin Fjarðarbyggð og Skagafjörður hafa höfðað mál á hendur lánasjóðnum vegna gengislána sem þau tóku hjá honum.

Greint var frá því í morgun að sveitarfélagið Fjarðarbyggð hafi tekið 800 milljóna króna gengislán í evrum og dollurum hjá Lánasjóðnum árið 2006. Það stökkbreyttist í kjölfar gengishruns krónunnar.

Fleiri sveitarfélög og stofnanir sveitarfélaga hafa sömuleiðis skoðað stöðu sína gagnvart sjóðnum þótt þau hafi ekki höfðað mál gegn sjóðnum.

Lánuðu 11 milljarða

Óttar segir þetta heppilegustu leðina úr því þessi staða er komin upp. Hann bendir þó á að Lánasjóðurinn hafi staðið í skilum við öll þau lán sem hann hafi tekið og endurlánað til sveitarfélaga. Lánin sem um ræðir tók sjóðurinn í þeirri erlendu mynt sem hann lánaði áfram.

Um síðustu áramót voru um 11 milljarðar króna gengislána útistandandi hjá Lánasjóði sveitarfélaga, að því er fram kemur í ársreikningi sjóðsins . Stærstur hluti þeirra var í evrum.