*

föstudagur, 24. september 2021
Innlent 24. júlí 2021 10:05

Rökrétt að stíga til hliðar

Úlfar hafði á­kveðið að hætta í stjórn Icelandair á næsta ári og því var á­kvörðunin um að víkja fyrir full­trúa Bain Capi­tal honum ein­föld.

Andrea Sigurðardóttir
Úlfar Steindórsson, fráfarandi stjórnarformaður Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Úlfar Steindórsson steig til hliðar úr stjórn Icelandair í gær er nýr fulltrúi fjárfestingafélagsins Bain Capital var kjörinn inn í stjórn á hluthafafundi félagsins í gær. Úlfar hafði setið í stjórn Icelandair frá árinu 2010 og gegnt stjórnarformennsku frá árinu 2017. Hann lítur yfir farinn veg og ræðir um framtíðarhorfur í ferðaþjónustunni í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út síðastliðinn fimmtudag. 

Hann segir framtíðina bjarta fyrir Icelandair, sem sé hryggjarstykkið í íslenskri ferðaþjónustu. Hann segir það mikla viðurkenningu fyrir félagið að fjárfestingarfélagið Bain Capital hafi áhuga á að koma inn sem hluthafi.

„Félagið er núna á fleygiferð, Bain Capital er að koma inn sem alveg gríðarlega sterkur hluthafi sem getur stutt félagið, hvort heldur sem er í vexti eða vörn. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér - enginn sá fyrir Max-málið eða faraldurinn - en ég hef mikla trú á framtíðarmöguleikum Icelandair. Félagið er aðeins farið að nýta lítinn hluta af þeim tækifærum sem felast í staðsetningunni, reynslunni, þekkingunni og svo framvegis. Icelandair hefur verið hryggjarstykkið í öllu sem snýr að íslenskri ferðaþjónustu og ég sé ekki fyrir mér að það sé neinn annar sem getur tekið við því hlutverki."

Ætlaði að hætta á næsta ári

Úlfar kom inn í stjórn Icelandair á sínum tíma við hlutafjáraukningu félagsins og kveður nú við hlutafjáraukningu. „Við getum sagt að ég sé kominn hringinn," segir hann hlæjandi og bætir við:

 „Við kláruðum fjárhagslega endurskipulagningu félagsins á síðasta ári og nú hefur Bain Capital áhuga á að koma inn sem hluthafi og vill sem slíkur eiga fulltrúa í stjórn, sem er ekki óeðlilegt þegar félagið kemur inn með rúmlega 16% hlut. Þetta gerist tiltölulega hratt, þegar þetta kemur til er boðaður stjórnarfundur þar sem ákveðið er að fara í þetta ferli. Í kjölfarið átti að senda út fréttatilkynningu en ég benti þá á að í henni væri hvergi minnst á það hver ætlaði að fara út úr stjórninni. Í mínum huga var það ómögulegt, vegna þess að þá fer í gang einhver samkvæmisleikur líkt og fyrir síðasta aðalfund, hver væri að fara inn og hver út, og félagið hefur ekkert við það að gera. Ég var sjálfur búinn að ákveða það að í mars á næsta ári myndi ég stíga til hliðar. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og ég hefði engan veginn viljað missa af neinu, hvorki góðu né slæmu. Þótt ég sé nú kannski orðinn gamall kall er ég enn ofboðslega áhugasamur um að læra og skilja umhverfið og fólk og allt sem þessu fylgir. Fyrir mér var þetta einföld og rökrétt ákvörðun í ljósi þess að ég ætlaði mér að hætta í mars."

Úlfar gengur því sáttur frá borði og einbeitir sér að öðrum verkefnum, en þar er af nægu að taka. Hann er enda forstjóri og einn aðaleigenda Toyota á Íslandi, ásamt því að koma að fleiri fyrirtækjum.

„Ég er með nóg af verkefnum hér í Toyota sem og í öðrum fyrirtækjum sem við erum með, þannig að það er nóg að gera - það þarf enginn að hafa áhyggjur af mér. Ég hef enga trú á því að mér muni leiðast á næstunni," segir hann kíminn.

Nánar er rætt við Úlfar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér