Rólegt var á hlutabréfamörkuðum í gær, föstudag. Velta með hlutabréf á Aðallista Kauphallar Íslands og hliðarmarkaðnum First North nam aðeins 1.099 milljónir króna. Það er minnsta dagsvelta síðan 9. ágúst 2006.

Í hálffimm fréttum Kaupþings í gær segir að velta með hlutabréf hafi töluvert dregist saman á milli ára.

Heildarveltan á fyrri árshelmingi nam 854 milljörðum króna og er það ríflega 40% samdráttur frá sama tímabili í fyrra.

Í síðasta mánuði nam heildarvelta hlutabréfa aðeins 84 milljörðum króna og dróst saman um nærri 60% á milli ára, segir í fréttum Kaupþings. Veltan í síðasta mánuði hafi aðeins verið fimmtungur af júlí í fyrra þegar velta með hlutabréf náði hámarki í einum mánuði sem skýrðist einkum af yfirtöku á Actavis.

Greiningardeild Kaupþings bender á nokkrar ástæður minnkandi umsvifa á hlutabréfamarkaði. Verðmæti hlutabréfa hafi fallið verulega frá því að Úrvalsvísitalan náði hámarki  í júlí í fyrra.

Aðgengi að lánsfé hafi verið takmarkað um þessar mundir auk þess sem hátt vaxtastig í landinu fæli fjárfesta frá hlutabréfamarkaðnum yfir í öruggara fjárfestingaskjól.