Úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands lækkaði lítillega í dag, um 0,03% og stendur nú í 1372,91 stigi. Velta á aðalmarkaði var að sama skapi lítil og nam tæpum 674 milljónum króna.

Mest hækkun var með bréf Nýherja, eða 3,58% í fjórum viðskiptum sem námu rúmum 8 milljónum króna hvað veltu varðar. Bréf í Sjóvá-Almennum hækkuðu einnig nokkuð, eða um 2,78%. Um var að ræða 22 viðskipti sem námu samtals rúmum 297 milljónum króna, sem var mesta veltan hjá einstöku félagi.

Mest lækkuðu bréf HB Granda, eða um 1,18% í 3 viðskiptum sem námu 1,7 milljónum króna.

Öllu meiri velta var á skuldabréfamarkaði, eða tæplega 5.136 milljón króna velta. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,47% í viðskiptum dagsins.