Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,28% í viðskiptum dagsins í dag og endaði í 1.863,27 stigum. Gengi bréfa Össurar hækkaði um 6,58% í 20,4 milljóna króna viðskiptum, en annars hækkaði gengi bréfa Reita um 0,42% í litlum viðskiptum og Eimskipa um 0,32%. Össur hefur verið að kaupa upp eigin bréf til að minnka hlutafé félagsins og tengist það hækkun gengis bréfanna.

Gengi bréfa Fjarskipta lækkaði um 1,11%, líka í litlum viðskiptum, en gengi bréfa Haga lækkaði um 1,02%.

Velta á hlutabréfamarkaði í dag var með minna móti, eða 673,7 milljónir króna og var veltan mest í viðskiptum með bréf Marels, eða 206,4 milljónir króna.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,1% í dag í 1,9 milljarða króna viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,2% og óverðtryggði hluti hennar hækkaði um 0,1%.

Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa lækkaði lítillega í dag í 0,1 milljarða króna viðskiptum.