Meirihluti í tímaritinu Rolling Stone hefur verið settur á sölu af útgáfufélaginu Wenner Media sem gefið hefur út tímaritið í hartnær 40 ár. Tímaritið var stofnað í San Fransisco árið 1967 á hátindi „hippatímabilsins“ af tónlistagagnrýnendanum Ralph Gleason og Jann Wenner.

Blaðið er hvað þekktast fyrir umfjöllun sína um tónlist, dægurmál, og stjórnmál, en forsíður þess eru víðfrægar. Þekktir tónlistarmenn, stjórnmálamenn og alls kyns dægurhetjur hafa prísað sig sæla yfir því að fá að vera „á forsíðu Rolling Stone,“ eins og sungið var um í laginu sem að Dr. Hook gerði frægt. Í því samhengi er hægt að nefna að tónlistarmenn á borð við Jim Morrisson og Madonna hafa prýtt forsíðuna, en einnig forsetar Bandaríkjanna og jafnvel páfar.

Alls eru lesendur Rolling Stone um sextíu milljónir — og kemur blaðið út mánaðarlega. Að sögn Wenner Media, núverandi eigenda, er þessi ákvörðun tekin til þess að ýta undir frekari vöxt blaðsins. Fyrirtækið átti áður tímarit á borð við Us Weekly og National Enquirer. Eins og sakir standa á fyrirtækið BandLab Technoligies 49% hlut í fyrirtækinu og Wenner Media, 51% hlut — sem er nú til sölu.