Rokkgoðsagnirnar í The Rolling Stones slá ekki slöku við í tónleikahaldi og eru nú að leggja af stað í tónleikaferðalagið No Filter sem mun hefjast með risatónleikum í Dublin á Írlandi þann 17. maí.

Hinir öldnu meistarar í Stones ætla að halda sér hraustum með því að drekka íslenskt vatn á tónleikaferðalaginu, en þetta kemur fram í tilkynningu. Sveitin hefur gert samkomulag við Icelandic Glacial um að sjá tónleikaferðalaginu fyrir hágæðavatni sem er sett á flöskur á umhverfisvænan hátt og er fyrsta tegund flöskuvatns í heiminum sem er vottað sem kolefnishlutlaust. Tónleikagestir fá því einnig að drekka íslenskt vatn og gera má ráð fyrir að þeir verði sérstaklega ánægðir með þessa tilhögun.

The Rolling Stones er umhugað um náttúru og umhverfisvernd og var mikið í mun að draga úr kolefnisspori sveitarinnar á jafnstóru tónleikaferðalagi og er í vændum. Jón Ólafsson, stofnandi Icelandic Glacial og sérstakur aðdáandi The Rolling Stones, er hæstánægður. „Við erum gríðarlega ánægð með þetta samstarfmeð hljómsveitinni og erum spennt fyrir því að hjálpa henni að gerast umhverfisvæn hljómsveit. Fyrirtækið okkar hefur frá upphafi lagt metnað sinn í að vera kolefnishlutlaust og það er sérstakt ánægjuefni að hitta á samstarfsaðila sem hafa sama metnað og við í því að draga úr kolefnisspori,“ er haft eftir Jóni í tilkynningunni.

No Filter-tónleikaferðalagið mun standa yfir til 8. júlí en því lýkur með risatónleikum í Varsjá. Stones heiðra 14 evrópskar borgir með nærveru sinni og munu heppnir tónleikagestir í London, Berlín og Prag, auk annarra borga, fá að svala þorsta sínum með því að drekka íslenskt vatn.