Rolls-Royce verksmiðjan mun að öllum líkindum segja upp um 2.000 manns á næstunni, þar af mörgum í Bretlandi.

Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu í morgun að með því að skera niður muni fyrirtækið geta aukið framleiðsluhæfni sína. Einkum verður um að ræða millistjórnendastöður. Frá þessu greinir The Guardian á fréttavef sínum.

Einnig kemur fram að fyrirtækið mun auka fjölda starfsnema og þrátt fyrir uppsagnir yrði áfram keppst um útskriftarnema, t.d. í vélarverkfræði.

Þrátt fyrir að aldrei hafi legið fyrir jafn margar pantanir hjá vélarrisanum segja forsvarsmenn þess að aukinn hráefniskostnaður, veikur dollari og dýrt starfsmannahald geri niðurskurð nauðsynlegan ætli fyrirtækið sér að ná markmiðum sínum. Verkalýðsfélög hafa mótmælt uppsögnunum og talað um aðgerðir þó ekkert ákveðið hafi komið fram í þeim málum.

Gengi dollars hefur mikil áhrif á rekstur fyrirtækisins þar sem flugvirkjar eru gjarnan verðlagðir í dollurum.

Rolls-Royce eru frægir fyrir lúxusbifreiðir sínar en síðustu árin hefur fyrirtæki einblínt á framleiðslu flugvélahreyfla og framleiðir nú hreyfla bæði fyrir Boeing og Airbus. Fyrirtækið framleiðir meðal annars hreyfla í nýju Boeing 787 og eins Airbus A380, nýjustu flaggskip flugvélaframleiðandanna. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um 2% í dag.

Um 40.000 manns starfa hjá Rolls-Royce og þar af 22.000 í Bretlandi.