Rolls-Royce hefur sent frá sér tilkynningu um hagræðingaraðgerðir fyrirtækisins þar sem fram kemur að það hyggist segja upp 2.600 starfsmönnum á næstu 18 mánuðum.

Fyrirtækið sérhæfir sig í byggingu hreyfla fyrir flugvélar og skip. Í síðasta mánuði sendi fyrirtækið frá sér viðvörun þess efnis að tekjur fyrirtækisins myndu dragast saman á næstunni og verða um 3,5-4% undir áætlun. Var það meðal annars vegna viðskiptaþvingana gegn Rússum sem hafi haft í för með sér að viðskiptavinir þaðan hafi hætt við eða frestað pöntunum til félagsins.

Sagði einnig í afkomuviðvörun fyrirtækisins að fyrirséð væri að reksturinn árið 2015 yrði erfiðari en búist hafði verið við vegna aðstæðna á markaði. John Rishton, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði við tilkynninguna í morgun að þetta yrðu ekki síðustu hagræðingaraðgerðirnar, en þær myndu hins vegar hjálpa til við rekstur fyrirtækisins og auka afkomu þess.