*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Erlent 29. maí 2020 20:45

Rolls Royce sett í ruslflokk

Lánshæfiseinkunn Rolls Royce hefur verið lækkuð vegna lítillar arðsemi og vandræða vegna Covid.

Ritstjórn
epa

S&P hefur lækkað lánshæfismat Rolls Royce úr fjárfestingareinkunn (e. investment grade) í ruslflokk eftir „langvarandi slaka arðsemi“ og væntinga um lægra sjóðsstreymi af vélaþjónstu samningum. Financial Times greinir frá. 

Niðurfærsla lánshæfiseinkunarinnar er mikið högg fyrir fyrirtækið sem tilkynnti um níu þúsund uppsagnir í síðustu viku. 

Flughreyflafyrirtækið hefur þurft að lækka kostnað verulega vegna væntinga um helmingi minni eftirspurnar á næstu fjórum árum vegna heimsfaraldursins. 

Margir stofnendafjárfestar munu þurfa að selja skuldabréf sín í fyrirtækinu vegna skuldbindinga um að fjárfesta einungis í skuldabréfum sem eru metin með fjárfestingareinkunn. Arðsemi þjónustusamninga gæti einnig minnkað vegna hærra áhættumats mögulegra viðskiptavina á nýjum langtímasamningum.  

Rolls Royce er mjög viðkvæmt fyrir áhrifum kórónuveirunnar þar sem tekjur fyrirtækisins eru tengdar við fjölda flugstunda hreyfla þeirra. S&P sagði að þrátt fyrir niðurfærslu á lánshæfismatinu hafi Rolls Royce komið sér í góða stöðu hvað varðar seljanleika.  

Stikkorð: Rolls Royce S&P lánshæfismat