Frá byrjun þessa mánaðar hefur gengi bréfa Romag Holdings hækkað um tæp 54% og um tæp 66% frá síðustu áramótum, segir greiningardeild Landsbankans og er hagnaður Atorku Group, sem á 13% hlut í félaginu, um 600 milljónir króna, það sem af er þessum mánuði, samkvæmt greiningardeildinni.

"Stærstur hluti eignar Atorku var keyptur undir árslok 2005 og á fyrstu mánuðum ársins 2006, en þá var gengi Romag á bilinu 1,00-1,40 GBP á hlut," segir greiningardeildin en gengi félagsins var 2,32 við lok dags í gær.

"Romag Holdings Plc, breskur framleiðandi á sérsniðnum glerlausnum, tilkynnti í lok síðustu viku að félagið hafi náð tíu ára samningi við Q-Cell um notkun á sólarrafhlöðum sem Q-Cell framleiðir.

Samningurinn gerir Romag kleift að nota sólarrafhlöðurnar í framleiðslu á gleri sem til dæmis má nota sem þakplötur til framleiðslu á rafmagni," segir greiningardeildin.