Roman Abramovich, eigandi knattspyrnufélagsins Chelsea FC, hefur svarað kalli Úkraínu um að taka þátt í friðarviðræðum á milli Rússlands og Úkraínu. Þetta kemur fram í grein hjá The Athletic, en talsmaður Abramovich hefur staðfest þátttöku hans í viðræðunum.

Rússneski auðjöfurinn, sem hefur í gegnum tíðina átt í miklum tengslum við Vladimír Pútín, hefur lítið sem ekkert sagt opinberlega um innrás Rússa. Kvikmyndaleikstjórinn og framleiðandinn Alexander Rodnyansky hefur staðfest þátttöku Abramovich í viðræðunum. Rodnyansky sagðist vera í stöðugum samskiptum við Zelensky, forsætisráðherra Úkraínu, sem væri afar þakklátur fyrir einlægna aðstoð Roman í viðræðunum.

Hins vegar eru ekki allir sannfærðir um einlægni Romans. Chris Bryant, þingmaður breska Verkamannaflokksins, segir þetta bera merki um „rússneskar lygar“ til að komast hjá viðskiptaþvingunum.

Stígur til hliðar

Síðastliðinn laugardag tilkynnti Abramovich að hann stígi til hliðar sem stjórnandi félagsins. Hann færði stjórn félagsins í hendur stjórnar góðgerðarsamtaka Chelsea. Meðal þeirra sem skipa stjórnina eru Bruce Buck, stjórnarformaður félagsins síðustu 18 ár og Emma Hayes, knattspyrnustjóri kvennaliðs Chelsea.

Líklega mun framkvæmdastjóri félagsins, Marina Granovskaia, stýra skútunni í fjarveru Romans. Hún hefur verið dyggur samstarfsfélagi hans í gegnum árin og var til að mynda aðstoðarkona hans í um áratug.