Mitt Romney áætlar að flytja ræðu í dag þar sem hann fer ófögrum orðum um forsetaframbjóðandann Donald Trump. Eins og mörgum er eflaust minnisstætt bauð Romney sig sjálfur fram til embættis forseta á móti Barack Obama í síðustu kosningum.

Í ræðu sinni kallar hann Trump ‘loddara’ og ‘svikara’, og segir kosningaloforð hans jafn innantóm og háskólagráða frá Trump University, sem er eins konar bréfaskóli á netinu í eigu Trump og hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að vera svikamylla.

„Trump er að spila með bandarísku þjóðina,” segir Romney í ræðu sinni, sem var birt á netinu áður en hún verður flutt í dag. „Hann fær frítt far upp í Hvíta húsið meðan það eina sem við hin fáum er ein vesæl derhúfa,” segir hann enn fremur.

Hann vísar þar til rauðu derhúfunnar sem Trump hefur selt til stuðningsmanna sinna. Á henni stendur “Make America Great Again”, sem er slagorð framboðsins.