Slagurinn um forsetastólinn í Bandaríkjunum harðnar með hverjum deginum. Bandaríska dagblaðið Washington Post birti frétt um það um helgina að Mitt Romney, forsetaefni Repúblikana, hafi í tíð sinni sem forstjóri bandaríska fjárfestingarsjóðsins Bain Capital í tæp 15 ár átt sinn þátt í því að flytja störf úr landi, einna helst til Kína og Indlands þar sem laun og annar kostnaður var lægri, og hefur skilað því að atvinnuleysi vestanhafs er með mesta móti.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur nýtt sér þessa fortíð Romney í ræðum sínum um stöðu efnahagsmála.

Romney stofnaði Bain Capital ásamt öðrum árið 1984 og stýrði Romney fyrirtækinu frá upphafi til ársins 1999. Í stjórnartíð hans var sjóðurinn með ráðandi stöðu tæpum 50 fyrirtækjum. Sjö fyrirtæki í eigu sjóðsins fór í þrot eftir að Romney stóð upp úr forstjórastólnum.

Í Washington Post er jafnframt rifjað upp að Romney hefur sjálfur sagt flutning á störfum eiga sinn þátt í því að bandarísk efnahagslíf stendur illa. Hann ætli að berjast af hörku gegn því, sérstaklega ætli hann að taka hart á Kínverjum sem hafi sogið störfin til sín.

Mitt Romney Bain Capital
Mitt Romney Bain Capital
Mitt Romney ásamt samstarfsfélögum sínum hjá Bain Capital á sínum tíma. Fyrirtækið rakaði inn hagnaði í forstjóratíð Romneys.