Mitt Romney veit af ljósmynd af honum og nokkrum framkvæmdastjórum vogunarsjóðsins Bain Capital. Romney býst við að myndin verði notuð gegn honum í kosningabaráttu, verði hann kosinn til þess að fara fram fyrir Repúblikanaflokkinn í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á næsta ári.

Ljósmyndin var tekin á 9. áratuginum. Þar eru Romney og framkvæmdastjórarnir að sveifla seðlum, sem eru í höndum þeirra, vösum og munni. Í frétt Bloomberg um málið segir að Demókratar kenni myndina við Gordon Gekko, karakter Michael Douglas í kvikmyndinni Wall Street.

Myndin var tekin þegar starfsmenn Bain Capital lokuðu fyrsta stóra fjárfestingasjóðnum sínum. Þá söfnuðu þeir alls 37 milljónum dala. Romney, sem er einn stofnenda sjóðsins, segir að þeir hafi stillt sér upp að því tilefni.