*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Erlent 20. febrúar 2021 17:02

Romney vill hækka lágmarkslaun

Öldungardeildarþingmaðurinn Mitt Romney og samflokksmaður hans vilja hækka lágmarkslaun og herða eftirlit.

Ritstjórn
Mitt Romney er meðal þekktari þingmanna Repúblíkanaflokksins, en hann var forsetaefni flokksins í kosningunum árið 2012 gegn sitjandi forseta, Barack Obama.

Tveir þingmenn Repúblíkana í Bandaríkjunum, þar á meðal Mitt Romney, fyrrum forsetaframbjóðandi, tilkynntu að þeir hygðust leggja fram frumvarp um hækkun lágmarkslauna á alríkisstigi þar í landi.

Hækkunin myndi taka gildi í þrepum, en auk hennar stendur til að frumvarpið skyldi atvinnurekendur til að sannreyna lagalega stöðu fólks á vinnumarkaði við ráðningu.

Romney og félagi hans Tom Cotton tilkynntu um málið á þriðjudag, en mikil umræða hefur verið um hækkun alríkislágmarkslauna í bandarískum stjórnmálum nýverið, sér í lagi eftir að Joe Biden tók við forsetaembættinu, en ákall um hækkun hefur að mestu leyti komið frá flokki hans, Demókrataflokknum.

Herta eftirlitið með stöðu fólks á vinnumarkaði – sem myndi beinast sérstaklega að ólöglegum innflytjendum – er hinsvegar þekkt baráttumál Repúblíkanaflokksins í seinni tíð, og ekki jafn vinsælt hjá Demókrötum.

Stikkorð: Mitt Romney