*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 13. júní 2017 15:50

Ronaldo ákærður fyrir skattsvik

Málið sem snýr að tekjum vegna ímyndarréttar er keimlíkt máli Lionel Messi.

Ritstjórn

Besti knattspyrnumaður heims Cristiano Ronaldo hefur verið ákærður af spænsku yfirvöldum fyrir 14,8 milljón evra skattsvik.

Ronaldo er tekjuhæsti íþróttamaður heims með um 93 milljónir dollara í árstekjur.

Snýr ákæran að því að Ronaldo taldi ekki fram allar tekjur sínar vegna ímyndarréttar á árunum 2011 til 2014. Gaf hann upp tekjur upp á 11,5 milljónir evra meðan heildarupphæðin nam 43 milljónum yfir tímabilið. 

Samkvæmt ákærunni fóru skattsvikin þannig fram að sett var upp fyrirtæki á Bresku Jómfrúareyjunum sem átti að sjá um ímyndarrétt Portúgalans. Það fyrirtæki færði svo réttinn yfir í annað fyrirtæki sem var skráð á Írlandi. Í tilkynningu frá saksóknara í málinu segir að fyrirtækið á Bresku Jómfrúareyjunum hafi verið sett á laggirnar með þeim tilgangi að villa um fyrir spænskum skattayfirvöldum. 

Málið er keimlíkt máli Lionel Messi sem var á dögunum sakfelldur fyrir að hafa komið tekjum af ímyndarrétti undan skatti með hjálp aflandsfélaga.