Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok síðustu viku sýknað af kröfu Ólafs Björnssonar, eiganda Dalsness, um endurgreiðslu á rúmlega 64 milljónum króna vegna viðbótarauðlegðarskatts.

Forsaga málsins er alllöng og á rætur að rekja til Dalsness. Árið 2013 skilaði félagið inn skattframtali venju samkvæmt en við skil á því var gerð grein fyrir eignarhlutdeild í öðrum félögum.

Í september 2015 gerði RSK hins vegar athugasemdir við skattskilin og voru svör Dalsnes á þá leið að niðurstaðan hefði verið í samræmi við leiðbeiningar RSK. Því bréfi svaraði RSK í nóvember sama ár og taldi ranglega talið fram. Nota hefði átt sömu aðferð fyrir erlend félög og innlend, það er að tilgreina bókfært verð eignarhluta og draga frá nafnverð hlutabréfa til leiðréttingar og fá þannig út virði félagsins. Það hafði Dalsnes hins vegar ekki gert þar sem leiðbeiningar RSK kváðu ekki á um slíkt. Leiðrétting á framtalinu hafði þau áhrif að skattalegt eigið fé Dalsness hækkaði um rúmlega 4,2 milljarða króna, úr rúmum milljarði í tæpa 5,3 milljarða.

Sú breyting hafði hins vegar engin áhrif á opinber gjöld félagsins. Aftur á móti hafði úrskurður RSK, dagsettur 17. febrúar 2016, áhrif á skattstofn auðlegðarskatts hluthafa Dalsness við útreikning auðlegðarskatts. Niðurstöðu RSK var skotið til yfirskattanefndar (YSKN) sem staðfesti hana. Þaðan var leitað til dómstóla en málinu var endanlega vísað frá dómi með dómi Hæstaréttar í desember 2017. Frávísunin var byggð á því að Dalsnes hefði ekki lögvarða hagsmuni af málinu þar sem það hefði ekki áhrif á opinber gjöld félagsins. Breytti þar engu um þó hluthafar í félaginu teldu sig hafa lögvarða hagsmuni, vegna afleiddra áhrifa, þar sem úrskurður RSK tæki eingöngu til Dalsness.

Skattframtölum þáverandi eigenda Dalsness var breytt í kjölfarið í samræmi við niðurstöðu YSKN og sá úrskurður RSK síðar staðfestur af YSKN. Fyrsta atrenna til að fá úrskurðinum hnekkt fyrir dómstólum bar ekki árangur.

„Málinu verður áfrýjað til Landsréttar. Ég tel að héraðsdómur hafi að engu leyti tekið á meginmálsástæðum umbjóðanda míns sem lutu að því að málsmeðferð ríkisskattstjóra við ákvörðun og endurákvörðun auðlegðarskatts þurfi að taka mið af því eðli hans að verið er að skattleggja eignir lögaðila hjá eigendum þeirra. Af þessari ástæðu var búið svo um hnútana í tekjuskattslögum að lögaðilum var gert að telja fram þær eignir sínar sem mynduðu stofn auðlegðarskatts hjá eigendum. Eigendum félaganna, þ.e. hinum skattskyldu aðilum, var hins vegar ekki játuð nein aðild að þessum framtölum lögaðilanna né veittur nokkur kostur á því að tjá sig við meðferð ríkisskattstjóra á þeim, þ.m.t. við einhliða breytingar ríkisskattstjóra á þessum framtölum,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Ólafs.

„Breytingarnar voru til komnar vegna rangra leiðbeininga sem ríkisskattstjóri veitti Dalsnesi við framtalsgerð þess og fylgt var af þess hálfu í góðri trú. Engan rökstuðning er að finna í héraðsdómi fyrir því hvernig slík málsmeðferð fær samrýmst eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Ástæðan er líklega sú að málsmeðferð sem þessi samrýmist þessum reglum engan veginn. Nú er bara að vona að eintak Landsréttar af stjórnarskránni sé ekki orðið eins máð og eintakið á bókasafni Héraðsdóms Reykjavíkur,“ segir lögmaðurinn..

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er: