Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, býður sig fram í embætti formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Rósa hefur verið bæjarstjóri Hafnarfjarðar síðan árið 2018 en hún mun gegna því embætti til ársins 2025. Þá var hún formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árin 2018-2020.

Í tilkynningu frá Rósu kemur fram að hún ætli meðal annars að leggja áherslu á frekari uppbyggingu í húsnæðismálum.

„Á meðal þeirra viðfangsefna sem munu bera hæst á komandi mánuðum og misserum og ég vil leggja áherslu á er frekari uppbygging í húsnæðismálum, mörkun sameiginlegrar stefnu ríkis og sveitarfélaga í málefnum og þjónustu við eldra fólk, úrgangs- og umhverfismálin, menntun og farsæld barna, stafræna þróun sveitarfélaga í þjónustu við íbúa og að lagðar verði fram nýjar tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum fatlaðs fólks.“

Aldís Hafsteinsdóttir hefur gegnt formennsku í SÍS frá árinu 2018 en hún er ekki lengur kjörgeng til stjórnarsetu. En til að sitja í stjórn þurfa frambjóðendur að vera aðal- eða varamenn í sveitarstjórn en Aldís hefur verið ráðin sveitastjóri Hrunamannahrepps.