Íslandssjóðir hafa ráðið Rósu Guðmundsdóttur sem sjóðsstjóra í Sérhæfðum fjárfestingum, en hún hefur undanfarin átta ár starfað sem viðskiptastjóri á Fyrirtækjasviði Íslandsbanka að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Íslandssjóðum.

Áður á Alþjóðasviði Íslandsbanka

„Rósa hefur 15 ára víðtæka reynslu af fjármálamarkaði. Hún hóf störf á Alþjóðasviði Íslandsbanka árið 2004 í kjölfar framhaldnáms í Bandaríkjunum en síðustu árin hefur Rósa starfað á Fyrirtækjasviði. Þar stýrði Rósa viðamiklum endurskipulagningarmálum, hún hefur víðtæka reynslu af fjármögnun stærri fyrirtækja og hefur borið ábyrgð á viðskiptasambandi bankans við mörg stærstu fyrirtæki landsins,“ segir í tilkynningunni.

„Sem verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf stýrði Rósa verkefnum sem snéru að yfirtökum og samrunum fyrirtækja og fjármögnun með sölu á nýju hlutafé. Þá hefur Rósa reynslu af fjármögnun erlendra fjárfestingarverkefna og samskiptum við erlend fyrirtæki og banka. Rósa var stjórnarformaður Borgunar hf. árin 2011-2015.

Rósa er með M.S. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Pennsylvania State University og B.S. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands Þá hefur Rósa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.“